Var Drekkingarhylur sprengdur með dínamíti við brúarsmíðar?

Næstkomandi laugardag, 19. október, klukkan 14:00 - 15:30 í gestastofu þjóðgarðsins á Haki verður Baldur Þór Þorvaldsson með fyrirlestur um brúarsmíð við Drekkingarhyl í Almannagjá. 

Baldur Þór er verkfræðingur og  fyrrum starfsmaður Vegagerðarinnar og fáir hafa rannsakað jafnvel sögu vegagerðar hér á landi og þá sérstaklega við Drekkingarhylinn forna. Vert er að minnast góðrar greinar sem birtist eftir hann í framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar um árið. 

Tilefnið er ærið enda er núverandi brú svo til í lítt breyttri mynd frá því að hún var breikkuð lýðveldisárið 1944. Það eru því liðin 80 ár frá síðustu umtalsverðu breytingum á brúnni. 

Boðið verður upp á kaffi og kleinur á viðburðinum. 

 

Drekkingarhylur í núverandi mynd

Myndin sýnir Drekkingarhyl eins og hann leit út að sumarlagi 2010. Lítið hefur breyst þar síðastliðin 14 ár. Þó var útlitið talsvert annað á árum áður. 

Drekkingarhylur um aldamótin

Brúin og umgjörð hennar hefur breyst umtalsvert í aldanna rás en Baldur Þór mun fara vel yfir sögu vegagerðar í Almannagjá í fyrirlestri sínum. 

Umtalsverð umferð, manna, hesta og í seinni tíð bíla, hefur farið um Almannagjá síðastliðnar aldirnar. Drekkingarhylur og þar sem Öxará fellur niður í Prestakrók hefur þó oftast verið farartálmi eða þangað til þar var loks byggð brú rétt fyrir aldamótin 1900. Brúin var talsvert samgöngubót og auðveldaði ferðir gesta á vellina fyrir neðan. 

Allt þetta og meira til mun Baldur rekja í fyrirlestri sínum í gesastofu þjóðgarðsins laugardaginn 19. nóvember sem hefst klukkan 14:00 í gestastofu þjóðgarðsins á Haki. 

 

Prestakrókur

Neðan Drekkingarhyls er Prestakrókur. Myndin sýnir talsvert breytta ásýnd frá því að ljósmyndarar frá um 1900 tóku ljósmyndir af brúnni.