Árið 2007 hófst vöktunarverkefni á lífríki og vatnsgæðum Þingvallavatns á vegum Umhverfisstofnunar, Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur og Þjóðgarðsins á Þingvöllum. Vöktunin mun veita mikilvægar upplýsingar um grunnþætti í lífríki vatnsins sem er nauðsynlegur þáttur í verndun þess.
Markmið vöktunarinnar er að beita samfelldum langtíma mælingum svo unnt verði að kortleggja hugsanlegar breytingar á lífríki vatnsins vegna meintra álagsþátta s.s. nýtingar vatns, frárennslis, vatnsmiðlunar eða vegagerðar. Lífríki Þingvallavatns er fjölskrúðugt og sérstakt. Má nefna sem dæmi að fjölbreytni bleikju í vatninu er einstæð og tvær sérstæðar marflóartegundir fundust fyrst í lindum vatnsins.
Helsti kostur samstarfs ofangreindra aðila um vöktun á lífríki Þingvallavatns er að betur verður fylgst með lykilþáttum lífríkis vatnsins og þannig fæst betri heildaryfirsýn yfir stöðu þess á hverjum tíma.Vöktuninni er skipt í þrjá meginverkþætti og um hvern verkþátt sér framkvæmdaraðili í samræmi við þar að lútandi samning. Verkþættir og framkvæmdaraðilar á öðru ári vöktunarinnar (sýnataka á árinu 2008) voru eftirfarandi:
- Efna- og eðlisþættir í írennsli og útfalli. Jarðvísindastofnun Háskólans.
- Lífríkis- og efna- og eðlisþættir í vatnsbol. Náttúrufræðistofa Kópavogs.
- Fiskistofnar. Veiðimálastofnun.
Fyrir vöktunarverkefninu fer verkefnisstjórn sem skipuð er einum manni frá hverjum framkvæmdaraðila. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er umsýsluaðili verkefnisins frá og með 2019 og sér umfjárhagslega umsýslu verkefna sem beinast að vöktun Þingvallavatns. Verkefnisstjórn ræður einn verkefnisstjóra sem hefur faglega þekkingu á lífríki Þingvallavatns.
Hér má finna áfangaskýrslur verkefnisins:
Áfangaskýrsla 2007
Áfangaskýrsla 2008
Áfangaskýrsla 2009
Áfangaskýrsla 2010
Hér má finna kynningu Haraldar Rafns Ingvasonar líffræðings hjá Náttúrufræðistofu Kópavogs um vöktun Þingvallavatns.
Yfirlitsskýrsla Náttúrufræðistofu Kópavogs -Vöktun á lífríki og vatnsgæðum ÞingvallavatnsYfirlit yfir fimm fyrstu vöktunarárin 2007–2011
Efnasamsetning Þingvallavatns 2019