Stofnun þjóðgarðs
Frá öndverðu hafa ferðamenn lagt leið sína á Þingvöll og ástæðan er líklega augljós. Sagan og hrikalegnáttúran gera Þingvelli nánast að skylduáfangastað þeirra sem um landið fara. Um miðja nítjandu öld komu fram hugmyndir í Bandaríkjunum um að friða svæði vegna fegurðar og mikilfengleika þeirra. Landnemar og landkönnuðir sem fóru um ónumin svæði uppgötvuðu staði og náttúrufyrirbæri sem þeir stóðu agndofa yfir. Borgvæðing samfara iðnbyltingunni hafði aukið þörf og áhuga almennings fyrir útivist og með því varð til ný náttúrusýn þar sem byrjað var að meta fegurð og sérkenni náttúrunnar til auðæva sem ekki mætti fórna heldur þyrfti að hlúa að og varðveita svo að komandi kynslóðir gætu einnig notið.
Kárastaðastígur var gerð hestvagnafær 1907 og á með tilkomu bifreiða var þetta lengi helsta leiðin niður á þingstaðinn.
Þessar hugmyndir bárust til Íslands í upphafi 20. aldar. Árið 1907 ritaði Matthías Þórðarson grein í Skírni undir yfirskriftinni Verndun fagurra staða og merkra náttúrumenja. Í henni fjallaði hann um nauðsyn þess að hlúa að stöðum sem væru merkilegir og sérstakir sökum fegurðar jafn vel og verndun fornminja og gamlir kirkjumunir voru varðveittir. Hann nefndi ýmsa staði en tiltók Almanngjá og svæðið umhverfis Þingvelli við Öxará sem dæmi um stað sem mætti sinna betur. Raunar tók hann fram að það væri búið að skemma Almannagjá með þeim vegi sem þá var búið að leggja. Hann rak dæmi um friðunaráform erlendis og nefndi meðal annars Yellowstone Park í Bandaríkjunum sem dæmi um stað sem friðaður væri með allsherjarlögum.
Árið 1913 ritaði Guðmundur Davíðsson þá grein sem átti eftir að ýta umræðunni um stofnun þjóðgarðsins á Þingvöllum úr vör. Greinin nefndist Þingvellir við Öxará og birtist í tímaritinu Eimreiðinni sem ritstýrt var af Valtý Guðmundssyni háskólakennara. Greinin var mjög beinskeytt og Guðmundur dró ekkert undan í lýsingum sínum af illri umgengni og skeytingarleysi landans á þessum sögufrægasta stað landsins, Þingvöllum. Hann ritaði í upphafi greinarinnar:
"Fáir Íslendingar munu koma svo í fyrsta sinn á Þingvelli við Öxará, að eigi dáist þeir að náttúrufegurðinni og í hug þeirra vakni, endurminningar um helstu viðburði sem tengdir eru við sögu þessa merkisstaðar. Þetta tvennt, söguviðburðirnir og náttúrufegurðin hlýtur að snerta tilfinningar allra sem staddir eru á þessum fornhelga stað. Þar má segja að saman sé komið flest það sem einkennilegast og fegurst er í íslenskri náttúru og þar hafa einnig gerst margir merkustu viðburðirnir í sögu Íslendinga"
Hótel Valhöll stóð við Efri-Velli frá 1898 fram til 1929 þegar hún var flutt á ís á þann stað sem hún stóð allt til 2009.
Í greininni rakti Guðmundur dæmi um þjóðgarða í Bandaríkjunum og í framhaldi af því nauðsyn þess að vernda bæri Þingvelli sem þá voru orðnir að vinsælum helgaráningarstað ferðamanna. Ekki var það þó fyrr en á árinu 1930 að brotið var blað í sögu náttúruverndar á Íslandi en þá var fyrsti þjóðgarðurinn á Íslandi stofnaður - Þjóðgarðurinn á Þingvöllum.
Árið 1930 var Guðmundur Davíðsson ráðinn fyrsti þjóðgarðsvörðurinn á Þingvöllum og bjó hann þar þangað til 1940 er hann lét af störfum vegna heilsubrests. Hann fluttist þá til Reykjavíkur og gerðist starfsmaður Alþingis til ársins 1948.
Þingvellir eru í dag einn af fjölsóttustu ferðamannastöðum landsins þar sem hundruðir þúsunda gesta koma árlega til að kynnast betur einum mesta sögustað og náttúruperlu Íslands.
Guðmundur Davíðsson, fyrsti þjóðgarðsvörður Þingvalla. Starfaði sem slíkur frá 1930-1940. Myndin er fengin úr Kennaratali á Íslandi en Guðmundur starfaði lengi sem barnakennari.