Miðstöð þjóðlífs
Um tveggja vikna skeið á sumri hverju reis lítið samfélag á Þingvöllum.Þangað streymdi fólk allsstaðar að, fólk sem vildi taka þátt í samkomu sem átti engan sinn líka á Íslandi. Orðatiltækið "nú er þröng á þingi" má líklega rekja til þingsins þar sem fjölmennt var þegar hæst stóð. Samkvæmt talningu Gissurar biskups Ísleifssonar voru þingfararkaupsbændur um 4000 talsins við lok 11.aldar. Þar sem goði gat krafið níunda hvern bónda þingreiðar voru allt að 500 þingfarakaups-bændur skyldugir að fara með með goða sínum til þings við lok elleftu aldar. Goði átti að styðja þá þingmenn sem sögðu sig í goðorð með honum en á móti studdu þingmenn goða sinn á þingum og í deilum. Goðar áttu að sjá þingmönnum sínum fyrir rými í búð sinni en aðrir sem komu reistu skýli og tjöld til að dvelja í á meðan þingi stóð.
Á þjóðveldisöld voru ekki eingöngu þeir sem áttu lögskipað erindi til Alþingis sem þangað lögðu leið sína. Í hinni fornu lögbók Grágás eru nefndar búðir sútara og sverðskriða og í mörgum Íslendingasögum er getið búða ölbruggara og veitingamanna á Alþingi. Þann tíma sem Alþingi stóð yfir var það miðstöð þjóðlífs og einskonar höfuðstaður landsins þangað sem almenningur sótti.
Þangað komu iðnaðarmenn og kaupmenn innlendir sem erlendir, fulltrúar erlendra þjóðhöfðingja, fólk í atvinnuleit og betlarar í leit að ölmusu. Kauphéðnar, sverðskriðar og sútarar buðu fram varning sinn og ölgerðarmenn sáu um að þingheimur gæti vætt kverkarnar. Fréttir voru sagðar úr fjarlægum heimshlutum, kappleikir háðir og veislur haldnar. Æskufólk réð ráðum sínum ekki síður en þjóðskörungar og lögvitringar.
Þeir sem sóttu þing þurftu að leggja á sig erfið ferðalög til að komast til Þingvalla hvert sumar. Sumir áttu einungis um 1-2 daga reið meðan aðrir voru um 14-17 daga á leiðinni yfir fjöll og eyðisanda á hálendi Íslands. Þingvellir lágu vel við fornum leiðum, mitt á milli helstu héraða sunnanlands og vestan, vart nema dagleið ríðandi mönnum. Úr fjölmennustu byggðum norðanlands, Húnaþingi, Skagafirði og Eyjafirði lágu torfærulitlir vegir á þing. Norðlendingar eystri og jafnvel Austfirðingar völdu fjallvegi þvert yfir landið en lengsta þingsókn áttu menn úr sunnanverðu Múlaþingi.
Í dag eru grasivaxnar búðarústir víðsvegar um þinghelgina einu leifarnar eftir tæplega 900 ára sögu þingsins. . Almennt er talið að búðir á þjóðveldisöld hafi verið stærri en þær sem voru reistar á síðari öldum Veggir voru gerðir úr torfi og grjóti og yfir búðina var reist trégrind þar sem var tjaldað yfir með vaðmáli eða öðru efni. Búðir voru iðulega reistar á grunni eldri búða og því eru flestar búðarústir sem sjást í þinghelginni frá seinustu tveimur öldum þingsins.