Lögberg
Alþingi á Þingvelli fór með æðsta löggjafar- og dómsvald á Íslandi frá stofnun þess um 930 til 1262-64. Þjóðveldisöld nær frá árinu 930 fram til áranna 1262-64. Þá var Lögberg miðdepill þinghaldsins. Á Lögbergi hafði lögsögumaður sitt rými en hann sagði upp gildandi lög þjóðveldisins í heyranda hljóði. Hann geymdi lögin í minni sér og hafði þrjú ár til að segja upp öll lögin en á hverju sumri sagði hann upp þingsköp.
Lögsögumaðurinn var kosinn af Lögréttu til þriggja ára og var eini launaði starfsmaður þjóðveldisins. Á Alþingi var lögsögumaðurinn valdamesti maður landsins en þess á milli var hann formlega valdalaus en naut að sjálfsögðu virðingar samferðamanna sinna til samræmis við mikilvægt hlutverk sitt.
Lögsögumaður stóð á Lögbergi og sagði upp gildandi lög. Lögsögumaður var kosinn til þriggja ára í senn. Kallaði hann upp þriðjung gildandi laga hvert sumar.
Þingvellir Þjóðgarður
Á Lögbergi máttu allir stíga fram, þar voru fluttar ræður er vörðuðu mikilvæg mál og fréttir sagðar af markverðum atburðum. Þinghelgun og þinglausnir fóru fram á Lögbergi og þar voru úrskurðir Lögréttu tilkynntir, tímatal rétt, stefnur birtar og þau tíðindi önnur sett fram er vörðuðu þjóðina alla. Lögberg var opið öllum þingheimi, þar gat hver maður flutt mál sitt í mikilvægum málum. Atburðir á Lögbergi verða lifandi í lýsingum í mörgum Íslendingasögum. Aðdraganda kristnitökunnar er vel lýst í Njáls sögu en þar segir:
"Um daginn eftir gengu hvorirtveggju til Lögbergs og nefndu hvorir votta, kristnir menn og heiðnir, og sögðust hvorir úr lögum annarra og varð þá svo mikið óhljóð að Lögbergi að engi nam annars mál. "
Hlutverk Lögbergs hvarf snemma úr sögu Alþingis er Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd á árunum 1262-64 með Gamla sáttmála. Af þeim sökum hefur nákvæm staðsetning Lögbergs gefið tilefni til umræðna en rök hafa verið færð fyrir tveimur staðsetningum. Annars vegar að Lögberg hafi verið á flötum bergstalli efst á Hallinum norðan Hamraskarðs þar sem fánastöngin er nú og hins vegar að Lögberg hafi verið inni í Almannagjá uppi við hamravegginn. Einungis fornleifarannsóknir í framtíðarinni geta gefið vísbendingar um staðsetningu Lögbergs en líklega verður nákvæm staðsetning Lögbergs aldrei ákveðin með óyggjandi hætti.
Margar myndir eru til af Lögbergi. Hér er túlkun listamannsins William Gershom Collingwood.
Þingvellir Þjóðgarður