Dómar
Eftir að ritlistin barst til Íslendinga með kristni voru lög meðal þess fyrsta sem fært var í letur til að koma í veg fyrir ágreining. Talið er að lögin hafi fyrst verið rituð veturinn 1117 -1118 á bæ Hafliða Mássonar á Breiðabólsstað í Vesturhópi. Þjóðveldislögin fengu síðar nafnið Grágás og eru varðveitt í nokkrum fornum handritsbrotum og tveimur skinnbókum sem skrifaðar voru á seinustu árum þjóðveldisins.
Gamlar lögbækur hafa geymst. Textar voru jafnan mjög myndskreyttir.
Líklegt má telja að dómur hafi starfað í tengslum við Alþingi frá upphafi, en nálægt árinu 960 voru stofnaðir fjórðungsdómar, einn fyrir hvern fjórðung, en landinu var þá um leið skipt í fjórðunga. Dómsmálum, sem ekki höfðu verið til lykta leidd á vorþingum í héraði, mátti skjóta til fjórðungsdóms á Alþingi.
Í upphafi 11. aldar var stofnaður fimmtardómur sem sat í lögréttu en fyrir honum mátti taka upp mál sem voru óútkljáð fyrir fjórðungsdómum. Með stofnun fimmtardóms voru dómsstig orðin þrjú í landinu. Á þjóðveldisöld var framkvæmdavaldið í höndum einstaklinga og því varð framkvæmd og fullnusta refsinga að koma frá þeim er málið varðaði. Af þeim sökum fóru engar aftökur eða aðrar refsingar fram á Þingvöllum á þjóðveldisöld.
Er Íslendingar komust undir yfirráð Noregskonungs færðist framkvæmdavaldið í hendur valdsmanna konungs, sýslumanna.
Sést á skilti við Drekkingarhyl. Þar var 18 konum líklegast drekkt.
Þingvellir Þjóðgarður
Árið 1281 var Jónsbók samþykkt sem lögbók og varð hún grundvöllur réttarfars í landinu næstualdirnar. Við lögtöku Jónsbókar urðu refsingar harðari en verið hafði á þjóðveldistímanum og við lögfestingu Stóradóms árið 1564 fjölgaði líkamlegum refsingum til mikilla muna á Þingvöllum. Drekkingarhylur, Gálgaklettur, Höggstokkseyri og Brennugjá eru örnefni sem munu lifa áfram sem minnisvarði um réttarfar þessa tíma.