Saga

Lögberg
Lögberg skv. Collingwood sem kom til landsins á 19. öld. Þar mátti hver frjáls maður taka til máls.
Saga Íslands og íslensku þjóðarinnar kemur hvergi betur fram á einum stað en á Þingvöllum við Öxará. Þar var Alþingi stofnað um árið 930 sem kom saman á Þingvöllum allt fram til ársins 1798. Meginviðburðir Íslandssögunnar hafa gerst þar og því skipa Þingvellir sérstakan sess í hugum allra Íslendinga. Þingvellir eru í dag friðlýstur helgistaður Íslendinga. Í lögum segir að hið friðlýsta land skuli ævinlega vera eign íslensku þjóðarinnar og undir vernd Alþingis.

Landnám
Upphaf Víkingaaldar er að jafnaði miðað við árás víkinga á munkaklaustur við Lindisfarne árið 793 og ljúka 1066 við sigur Vihjálms Sigursæla yfir Englandi. Einkennandi fyrir þennan tíma er að þá tók norrænt fólk sér bólfestu allt frá Volgubökkum til austurstranda Norður-Ameríku og frá Miðjarðarhafi til Norður-Íshafs.

Lögberg
Alþingi á Þingvelli fór með æðsta löggjafar- og dómsvald á Íslandi frá stofnun þess um 930 til 1262-64. Þjóðveldisöld nær frá árinu 930 fram til áranna 1262-64. Þá var Lögberg miðdepill þinghaldsins. Á Lögbergi hafði lögsögumaður sitt rými en hann sagði upp gildandi lög þjóðveldisins í heyranda hljóði. Hann geymdi lögin í minni sér og hafði þrjú ár til að segja upp öll lögin en á hverju sumri sagði hann upp þingsköp.

Lögrétta
Lögrétta var æðsta stofnun Alþingis á þjóðveldisöld og fór með löggjafarvald. Starfsvið Lögréttu var margþætt en hún skar úr lagaþrætum, setti ný lög og veitti undanþágur frá lögum. Á þjóðveldisöld var Lögrétta staðsett austan við Öxará.

Dómar
Eftir að ritlistin barst til Íslendinga með kristni voru lög meðal þess fyrsta sem fært var í letur til að koma í veg fyrir ágreining. Talið er að lögin hafi fyrst verið rituð veturinn 1117 -1118 á bæ Hafliða Mássonar á Breiðabólsstað í Vesturhópi. Þjóðveldislögin fengu síðar nafnið Grágás og eru varðveitt í nokkrum fornum handritsbrotum og tveimur skinnbókum sem skrifaðar voru á seinustu árum þjóðveldisins.

Miðstöð þjóðlífs
Um tveggja vikna skeið á sumri hverju reis lítið samfélag á Þingvöllum.Þangað streymdi fólk allsstaðar að, fólk sem vildi taka þátt í samkomu sem átti engan sinn líka á Íslandi. Orðatiltækið "nú er þröng á þingi" má líklega rekja til þingsins þar sem fjölmennt var þegar hæst stóð.

Kristnitaka
Frá upphafi landnámsaldar var heiðinn siður viðtekinn á Íslandi þótt sumir landnámsmanna hafi verið kristinnar trúar. Íbúar landsins dýrkuðu hin fornu goð með blótum. Á sama tíma fór útbreiðsla kristinnar trúar í nágrannalöndunum vaxandi.

Þinghelgin
Þingið eða þinghelgin er það svæði kallað sem Lögberg og Lögrétta voru á og störf Alþingis fóru fram þann tíma sem þingið var háð á Þingvöllum. Þinghelgin er talin hafa afmarkast af Köstulum, tveimur hraunhólum nyrst á Neðri-Völlum til norðurs, Þingvallavatni til suðurs, hærri vegg Almannagjár til vesturs og Flosagjá og gjánum þar suður af til austurs. Innan þessara marka skyldu allir menn hafa grið og eiga frjálsa aðild að því sem fram fór. Flosagjá er ein af megingjám Þingvalla með tæru vatni allt að 25 m djúpu.

Tákn sjálfstæðis
Þingvellir urðu að þýðingarmiklu sameiningartákni í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á 19. og 20. öld. Sumarið 1798 var síðasta þingið haldið á Þingvöllum. Eftir að þingið var lagt af voru Þingvellir hljóður staður, utan alfaraleiðar um nokkurn tíma. Þegar svo straumar sjálfstæðisvakningar í Evrópu náðu til Íslendinga í upphafi 19. aldar voru saga og náttúra Þingvalla vakin til lífsins. Þingvellir fengu lifandi hlutverk í þjóðlífinu sem tákn um sjálfstæði.

Stórhátíðir
Frá því að Alþingi var lagt niður á Þingvöllum 1798 hafa Íslendingar haldið sex miklar hátíðir á Þingvöllum. Árið 1874 var þjóðhátíð haldin á Þingvöllum til að fagna 1000 ára afmælis Íslandsbyggðar. Af því tilefni afhenti Kristján IX. Íslendingum fyrstu stjórnarskrána en samkvæmt henni fékk Alþingi takmarkað löggjafararvald og fjárforræði. Íslendingar fjölmenntu til Þingvalla til að verða vitni að atburði sem markaði þáttaskil í sjálfstæðisbaráttunni.

Stofnun þjóðgarðs
Frá öndverðu hafa ferðamenn lagt leið sína á Þingvöll og ástæðan er líklega augljós. Sagan og hrikalegnáttúran gera Þingvelli nánast að skylduáfangastað þeirra sem um landið fara. Um miðja nítjandu öld komu fram hugmyndir í Bandaríkjunum um að friða svæði vegna fegurðar og mikilfengleika þeirra.

Hraunbýli
Í gegnum árhundruðin voru ýmis býli og sel í grennd við Þingvallsvæðið. Hér munu smátt og smátt birtast inn upplýsingar um þá byggð sem löngum var en hefur niðurlagst á Þingvöllum.