Dagur íslenskrar tungu er haldinn í dag, 16. nóvember. Í tilefni fæðingardags Jónasar Hallgrímssonar verður hér greint frá 16 örnefnum innan þjóðgarðsins á Þingvöllum. Öll eru þau sérkennileg á sinn hátt og mörg þeirra eiga sér engar hliðstæður hér á landi.
Sum örnefnin bera merki um staðbundnar málvenjur, önnur hafa þróast frá sínum upprunalegu orðmyndum og enn önnur geyma sögur frá liðnum tímum. Öll örnefnin eiga það þó sameiginlegt að endurspegla sérstöðu og fjölbreytileika íslenskunnar.
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum býr yfir mikilli auðlegð í formi örnefna. Vel yfir 800 örnefni fyrirfinnast í þjóðgarðinum og næsta nágrenni hans, sem fyrrum ábúendur sveitarinnar skráðu niður á síðustu öld og varðveittu þannig fyrir næstu kynslóðir.
Nú fer fram umfangsmikil samantekt á þessum örnefnum og er þeim hægt og rólega komið inn á örnefnaskrá á heimasíðu þjóðgarðsins á Þingvöllum og þau gerð aðgengileg öllum.
Hér má sjá staðsetningu þessara sérkennilegu örnefna sem hafa verið dregin fram. Kortið gerði Gunnar Grímsson.
Hér er tengill á gagnvirkt kort og hægt að sjá fleiri örnefni á Þingvöllum.
Þingvellir
1. Rauðukusunes
Þetta stóra nes tilheyrir Kárastöðum og skagar út í norðvestanvert Þingvallavatn. Nokkur fjöldi sumarhúsa var reistur á og við nesið á síðustu öld og að sögn fannst einhverjum sumarhúsaeigendum nafnið Rauðukusunes ekki nógu virðulegt. Því var reynt að breyta nafninu í Kárastaðanes og var það merkt sem svo á íslenskum staðfræðikortum í dágóðan tíma.
Nafnbreytingin hlaut aftur á móti engan hljómgrunn innan sveitar og þótti tilhæfulaust að breyta svona gamalgrónu örnefni. Nesið er því áfram kennt við rauðleita kú – öllu heldur kusu – sem engar frekari sagnir fara af. Nafngiftin er ekki einsdæmi því annað svipað örnefni, Rauðukususteinn, fyrirfinnst á einum stað í Vestur-Barðastrandasýslu.
Horft yfir Rauðukusunes.
Þingvellir
2. Kattabani
Hóll þessi er nálægt útræði Kárastaðabænda í Þingvallavatni og vekur umsvifalaust upp óhug hjá kattaunnendum. Tildrög nafnsins eru þó öllu sakleysislegri og er þar vísað í innansveitarmáltækið „að rota kettina“ þegar silungsveiðin er góð.
Kattabani séður frá Veiðitanga.
Þingvellir
3. Grýla
Vík þessi í Þingvallavatni, upp við eyðibýlið Vatnskot, þótti alls kostar óbarnvæn vegna leireðju á vatnsbotninum sem myndaði hálfgert kviksyndi. Því var víkin nefnd Grýla – eftir tröllskessunni ógurlegu – til að hræða börnin á Vatnskotsbænum og halda þeim fjarri henni.
Þó ekki tröllskessan, heldur leirkenndur og hvikull botn sem gat reynst börnum erfiður.
Þingvellir
4. Öfugsnáði
Þessi tangi í norðanverðu Þingvallavatni er vinsæll veiðistaður og líklega nefndur svo vegna óbeinnar lögunar hans. Þarna var veiði- og þvottastaður Skógarkotsbænda og notuðu þeir tangann til aðrekstrar á vorin.
Víkin vestan Öfugsnáða heitir Öfugsnáðavík en nýnefnið Asnapollur hefur fest sig þar hjá sumum stangveiðimönnum, enda er kviksyndi í botninum og allkauðskt að vaða þar um. Hér vaknar upp fróðlegt álitamál – eiga örnefni að vera meitluð í stein líkt og forverar okkar höfðu þau, eða eigum við einhverja hlutdeild í nýsköpun þeirra?
Fjallasýnin frá Öfugsnáða.
Þingvellir
5. Vellankatla
Þessi víðfrægi áningarstaður við bakka Þingvallavatns kemur fyrir í Brennu-Njáls sögu og Kristni sögu; þá hét hann Vellandkatla. Örnefnið gæti hljómað sérkennilega fyrir mörgum en er þó einkar lýsandi, því hér er talsvert kaldavatnsuppstreymi og líkist það helst vatni sem vellur upp úr kötlum.
Munnmæli úr sveitinni herma að Vellankatla hafi áður verið á þurru landi skammt ofan Þingvallavatns. Þar hafi uppsprettulind bullað upp úr hrauninu og lækur þaðan runnið út í vatnið. Vellankatla hafi síðar farið undir vatnsborð Þingvallavatns í gríðarlegu landsigi 1789 og verið þar allar götur síðan, nema í júní 1959 þegar stíflan í Sogskjaftinum brast og vatnsborðið lækkaði um hálfan annan metra.
Jökulkalt grunnvatn vellur upp úr þessu auga allan ársins hring.
6. Grímastaðir
Fornbýli þetta sunnan Svartagils var sögusvið í Harðar sögu og Hólmverja. Þar bjuggu Grímur „litli“ og Guðríður kona hans, ásamt syni þeirra Geir og söguhetjunni, Herði Grímkelssyni, sem þar var í fóstri. Síðar áttu tvær grímur eftir að renna á gæfu fóstbræðranna, svo vægt sé til orða tekið.
Einhver hljóðbreyting varð á bæjarheitinu á 18. öld og kallaðist eyðibýlið þá Grímastaðir, e.t.v. til að samræmast næstu bæjarheitum, Brúsastöðum og Kárastöðum. Annað fornbýli, Þórhallsstaðir, hlaut sömu meðferð og kallast nú Þórhallastaðir. Þetta hefur síðan haldist óhnikað á Þingvallamáli.
Sitt sýnist hverjum um málbreytinguna. Er þetta afbökun á fornu örnefni og illur amlóðaháttur, máli voru og minningum til vanvirðu? Eða eru þetta dæmi um einstakar málvenjur og fjölbreytileika tungumálsins sem skapa bæjarheitinu sérstöðu frá öllum hinum Grímsstöðum landsins?
Bæjarrúst Grímastaða (eða Grímsstaða) er í forgrunni myndarinnar og lætur lítið á sér bera.
Þingvellir
7. Leirar
Annað málfræðifrávik er tjaldgestum þjóðgarðsins þaulkunnugt, enda stendur tjaldsvæði Þingvalla á uppgrónum lækjarframburði sem hét Leirur fram á 18. eða 19. öld. Þá var „u“-i breytt í „a“ og heita valllendisflatirnar nú Leirar. Svo fastheld varð nýja stafsetningin innan sveitarinnar að skrifað var í hástöfum „EKKI LEIRUR“ aftan við nafnið í örnefnaskrá. Almenn sátt virðist ríkja um ritháttinn þó svo hann falli ekki endilega að almennum málvenjum.
Gjáin austan Leira kallast Leiragjá og um hana liggur svonefnd Leiragata um Leirastíg. Þarna glittir í enn aðra málhefð hraunbúanna, því hugtakið stígur á Þingvallamáli er ekki notað yfir göngu- og reiðleiðir líkt og við höfum nú vanist. Þess í stað eru stígar afmarkaðir staðir á gjám þar sem hægt er að komast yfir þær.
Hér kannast margir við sig enda helsta tjaldstæði þjóðgarðsins.
Þingvellir
8. Hringormur
Þetta hringlaga sker má finna í grynningum Þingvallavatns skammt sunnan Vatnskots. Vel má hugsa sér að lögun og útlit skersins hafi örvað ímyndunaraflið er það stakkst upp úr vatninu.
Lagarfljótsormur Þingvallavatns?
Þingvellir
9. Rótólfsstaðahæð
Þessi stóra og aflanga hrauntröð er eitt af landamerkjum þjóðgarðsins á Þingvöllum í suðaustri. Hæðin hefur á síðari tímum einnig verið nefnd Róthólsstaðahæð – og efsti punktur hennar Róthóll – en nafnið mun vera dregið af ævafornu býli eða íverustað sunnan undir hæðinni, sem ýmist hefur kallast Rotólfsstaðir, Ródólfsstaðir eða Bótólfsstaðir. Þar leynast óljósar mannvirkjarústir og túngarður upp við grjótbala og stakan birkirunna. Eyðibýlið var friðlýst sem fornleifar 1927 en féll svo í gleymsku og fannst loks á nýjan leik árið 2022.
Einhverjar skógarleifar fyrirfinnast sunnan undir hæðinni sem og mögulegar kolagrafir.
Þingvellir
10. Sand-„Gíslahæð“
Eitt sérkennilegasta örnefni þjóðgarðsins er staðsett hér um bil mitt á milli Almannagjár og Hrafnagjár, skammt norðan Þingvallavegar og austan bílaútskots. Engar sögur fara af Gísla þeim, er hæðin gæti verið kennd við. Lítið gildrag með sandflagi er sagt vera í vesturbrekkum hæðarinnar og út frá því er ekki ólíklegt að hæðin hafi áður heitið Sandgilshæð.
Ekki hefur enn tekist að staðsetja sandflagið í hæðinni.
Þingvellir
11. Skyrklifshólar
Þessir tveir gamburmosagrónu hraunhólar rísa hátt upp úr kjarrbreiðunum austan afleggjara Efrivallavegar. Vel má vera að skarðið milli hólanna hafi heitið Skyrklif, eða þá að einhver hafi áður fyrr klöngrast þar um með skyrklyfjar, inn á milli gjótna og dauðadjúpra gjásprungna.
Gómsætasta örnefni Þingvallahrauns?
Þingvellir
12. Baulufoss
Flestir þekkja Öxarárfoss sem steypist niður Almannagjá og prýðir alþingisstaðinn forna. Færri kannast þó við Baulufoss, sem er spölkorn ofar í landinu. Öxarárfoss og Baulufoss eru einu fossarnir í þjóðgarðinum á Þingvöllum sem bera nöfn.
Baulufoss er í ónefndri lækjarseytlu sem á upptök sín undan svonefndum Brúsastaðabrekkum. Á einum stað hlykkist lækur þessi um skarð milli tveggja hólahryggja og myndar litla flúð. Ekki er ljóst hvers vegna nafnið Baulufoss varð fyrir valinu, e.t.v. vegna beljandi fossniðar eða einhverrar óútskýrðrar tengingar við forna grjóthleðslu nokkrum metrum sunnar.
Mynd þessi er tekin skömmu eftir úrhellisrigningu og því er æði mikið vatn í fossinum.
13. Lýtingsvarða
Varða nokkur á gönguveginum milli Þingvallabæjar og Skógarkots ber þetta forvitnilega nafn. Líklegast er varðan kennd við mann sem hét Lýtingur. Nú er allnokkuð lýti að vörðunni, því ferðafólk hefur hrúgað steinum ofan á hana á undanförnum áratugum.
Ekki er góður siður að hrúga aðkomugrjóti á vörður, því það dregur úr burðarþoli þeirra og afmyndar þær.
Þingvellir
14. Danskidalur
Engin skýring fylgir nafni þessa örnefnis í túninu sunnan Þingvallabæjar. Enn forvitnilegra er þó hugtakanotkunin, því dalur þessi er ekki nema tíu metrar í þvermál og mannhæðardjúpur. Ekki voru harðar stærðarkröfur gerðar á hugtakið „dalur“ í málvenjum Þingvellinga og voru hvers kyns lautir og dældir í hinu víðáttumikla hraunlendi sveitarinnar kallaðar dalir.
Skammt suðaustan Danskadals er annað jarðfall, ögn stærra, sem ber nafnið Skeggi og austan hans er bogadreginn hóll sem heitir Svelghóll. Ekkert er heldur vitað um tildrög þeirra nafngifta.
Túnið sjálft heitir Miðmundatún og vísar í sólarganginn. Þegar sólin var yfir túninu var komið hádegi á Þingvallabænum.
Þingvellir
15. Pelahella
Gamla þjóðleiðin um Þingvalladældina liggur yfir hraunhellu þessa austur af Skógarkoti. Kippkorn ofar er eyðibýlið Þórhallsstaðir, þar sem Þórhallur „ölkofri“ er sagður hafa búið til forna og bruggað öl handa þingmönnum. Pelahella skírskotar líklega í vasapela ferðalanga, sem hafa e.t.v. staupað sig þar og hugsað hlýlega til Þórhalls í leiðinni.
Mörgum hefur þótt sopinn góður á þessari hellu.
Þingvellir
16. Tintron
Gígstrompur þessi í austurjaðri þjóðgarðsins á Þingvöllum hefur löngum verið hugðarefni ferðafólks, ekki einungis sem náttúrufyrirbæri heldur einnig vegna einstakrar nafngiftar. Örnefnið hefur einnig verið stafsett Tintrón og Tindtrón og hefur e.t.v. upphaflega heitið Tindatrón – ekki óskylt örnefninu Tindastól.
Glæsilegur gígstrompur sem gaman er að horfa ofan í. Um hann hefur verið skrifað í mörgum ferðabókum.