Örnefnaheimildir

Fornasel Olafsdrattur
Ólafsdráttur og Fornasel, horft til norðurs.

Hvað er örnefni?

Örnefni eru hvers kyns nöfn sem mannfólk hefur gefið fyrirbærum á landi og vatni. Þau eru mörg hver ævaforn, hafa gengið kynslóða á milli og innihalda gjarnan sögur af náttúrunni og samspili mannfólks við hana.

Örnefni eru afar fjölbreytt og birtast í öllum stærðum og gerðum. Þau geta átt við stór fyrirbæri, frá gjörvöllu Íslandi og heilu landsfjórðungunum niður í fjöll, ár, vötn og hraunbreiður. Sum örnefni skiptast þá gjarnan niður í enn smærri einingar og eru einstakir hlutar þess með eigin sérheiti.

Örnefni geta verið vitnisburðir um ferðir fólks um landið fyrr á öldum. Fjölmargar leiðir liggja milli bæja og sveita og bera margar þeirra nöfn. Allmörg örnefni eru nálægt eða upp við leiðirnar og lýsa þau oft ákveðnum hlutum leiðanna, líkt og einstigum, beygjum og vöðum. Enn önnur örnefni eru leiðarmerki sem fólk tók stefnu á í sínum ferðalögum.

Enn fleiri örnefni eru tengd búsetu og tengjast daglegu lífi fólks fyrr á öldum. Slík örnefni geta verið agnarsmá og eiga jafnvel við um örlitlar þúfur og smáhóla. Þetta geta verið örnefni innan túns, landamerki milli jarða, veiði- og þvottastaðir, beitarhús, stekkir og sel og jafnvel forn eyðibýli. Sum örnefni tengjast þjóðsögum og munnmælum, líkt og álagablettir. Slík örnefni teljast mörg hver til fornleifa og eru friðuð samkvæmt lögum um minjavernd, þar sem þau eru vottar um mannlegar athafnir til forna og hluti af eiginlegu menningarlandslagi.

Örnefni eru lifandi fyrirbæri í þeim skilningi að þau eru hluti af daglegu máli og geta þróast og tekið breytingum í tímans rás. Gömul örnefni hverfa úr almennri málnotkun þegar þau þjóna ekki lengur tilgangi sínum, önnur bjagast eða fá nýtt heiti og ný örnefni spretta upp þegar þörf er á að skilgreina ákveðna staði í náttúrunni.

Örnefni á Þingvöllum

Þingstaðaörnefni

Innan þjóðgarðsins á Þingvöllum má finna yfir 800 örnefni af öllum stærðum og gerðum. Sum örnefnin ná allt aftur til sögualdar og koma meðal annars fram í Íslendingabók Ara fróða, Grágás og ýmsum fornritum líkt og Njálssögu og Grettlu. Þar eru þau iðulega tengd alþingisstaðnum forna við Öxará og þjóðleiðum sem liggja að honum. Ýmsar lýsingar eru þá til af alþingisstaðnum frá og með 18. öld, þar sem greint er frá búðastaðsetningum samtímafólks og giskað er hvar sagnapersónur fornaldar tjölduðu búðum sínum. Í því samhengi má helst nefna Alþings katastasis Sigurðar Björnssonar lögmanns frá 1700, búðaskrá Jóns Steingrímssonar eldklerks frá 1783 og rannsókn Sigurðar Guðmundssonar málara frá 1861, sem birt var ásamt uppdrætti af staðnum að honum látnum árið 1878.

Önnur forn örnefni birtast í heimildum síðari alda, líkt og í Ármannsrímum (sem voru samdar eftir fornum munnmælum 1637) og í kafla Jarðabókar Árna Magnússonar og Páls Vídalíns um Þingvallasveit árið 1711. Örnefnin eru þar oftast tengd fornum bæjarstæðum, sem voru þá talin hafa farið í eyði í plágunni miklu. Þingvallaprestarnir og feðgarnir Páll Þorláksson og Björn Pálsson rituðu hvor um sig áhugaverðar lýsingar í lok 18. aldar og fyrri hluta þeirrar 19., þar sem fram komu frekari heimildir um eyðibyggðina í Þingvallasveit, sem náði þá að sögn lengst inn til hálendisins og var að nokkru leyti samtvinnuð frásögnum um tröll og aðrar forynjur. Seinna á 19. öld eru ýmsar landamerkjaskrár ritaðar sem ákvarða mörk einstakra jarða við tiltekin örnefni í náttúrunni.

Mikil gróska var í skrifum um alþingisstaðinn forna um þarseinustu aldamót, enda voru Þingvellir þá löngu orðnir táknmynd sjálfstæðis og forns stjórnarfars. Björn Gunnlaugsson gerði ágætan uppdrátt af þingstaðnum árið 1861. Danski textafræðingurinn Kristian Kålund athugaði Þingvelli 1874 og árið 1881 gróf Sigurður Vigfússon fornfræðingur í forn mannvirki á völlunum. Þá heimsótti danski liðsforinginn og fræðimaðurinn Daniel Bruun Þingvelli 1897 og kannaði staðfræði hans nánar. Allir þrír mennirnir reyndu að staðsetja ýmis örnefni á þingstaðnum sem höfðu gleymst eða farið á reik á seinustu öldum, líkt og lögberg, Hamraskarð og lögréttu. Auk áðurnefndra manna hafa ýmsir aðrir tekist á um staðsetningu örnefnanna og varð það að miklu deilumáli á 20. öld og lifir sú umræða að einhverju leiti enn í dag.

Brynjúlfur Jónsson fornfræðingur kannaði eyðibyggðina í Þingvallahrauni lítillega árið 1904 og árið 1922 birti Matthías Þórðarson þjóðminjavörður greinargóða samantekt um alþingisstaðinn. Sú grein varð síðar burðarstoð í bók hans Þingvöllur – alþingisstaðurinn forni sem kom út 1945. Bókin er nú algjört grundvallarrit um Þingvelli og inniheldur ekki aðeins heildstæða samantekt um þingið heldur einnig öll helstu örnefni í landi Þingvalla, jafnt náttúruleg sem og tengd eyðibyggðinni. Flest önnur rit um Þingvelli síðan þá eru byggð með beinum eða óbeinum hætti á bók Matthíasar.

Búsetuörnefni

Snemma á 20. öld tóku ýmsir bændur upp á að skrifa niður örnefni innan þeirra jarða. Ásgeir Jónasson, bóndasonur frá Hrauntúni og síðar skipstjóri með meiru, var þar fremstur í flokki innan Þingvallasveitar. Ritaði hann ágæta örnefnalýsingu fyrir Miðfellshraun árið 1932 og árið 1939 kom út umfangsmikil örnefnalýsing hans um Þingvallahraun. Sú lýsing (sem styðst að hluta til við upplýsingar frá Símoni Péturssyni í Vatnskoti) er ómetanleg heimild um horfna lifnaðarhætti á Þingvöllum og er þar greint frá ríflega 300 örnefnum af öllum stærðum í hrauninu.

Ekki er unnt að greina frá öllu því sem ritað hefur verið um Þingvelli á 20. öld enda hafa margir reynt að leysa úr ráðgátum staðarins á ýmsum sviðum. Má þó í því samhengi nefna smáritið Leiðsögn um Þingvelli eftir Guðmund Davíðsson frá 1945. Guðmundur var fyrsti umsjónarmaður þjóðgarðsins á Þingvöllum og birti þar uppdrátt af þinghelginni ásamt ýmsum smærri örnefnum. Hann var áður ötull talsmaður þjóðgarðsstofnunnar og skrifaði fjölmargar greinar í dagblöð og tímarit, þar sem hann minnist á forn örnefni í Bláskógum. Guðmann Ólafsson frá Skálabrekku greindi frá ýmsum örnefnum í Þingvallavatni ásamt Sigurjóni Rist vatnamælingamanni í greininni Ísar Þingvallavatns frá 1986 og Össur Skarphéðinsson tók saman ýmsar upplýsingar um vatnið og samspil manna við það í bók sinni Urriðadans frá 1996.

Mikið átak varð í örnefnaskráningu á Íslandi upp úr 1970 og var þá rætt við aldraða bændur víðs vegar um landið til fróðleikssöfnunar áður en það varð um seinan. Þar fengust mikilvægar heimildir frá ýmsum bæjum í Þingvallasveit, þar á meðal Arnarfelli, Svartagili, Vatnskoti, Brúsastöðum og Kárastöðum, sem hafa síðar verið felldir innan þjóðgarðsmarka. Utan þjóðgarðs – en innan Þingvallasveitar – voru góðar lýsingar skrifaðar af Skálabrekku, Selkoti, Fellsenda, Stíflisdal og Heiðarbæ og enn önnur lýsing var skrifuð um afréttina inn til landsins.

Fremstur meðal jafningja í örnefnaskrifunum var Pétur J. Jóhannsson, sem ólst upp í Skógarkoti og bjó um stund á Mjóanesi. Fáir hafa þekkt Þingvallasvæðið jafn vel og Pétur. Árið 1983 ritaði hann, ásamt Gunnari Þórissyni frá Fellsenda, merka sveitarlýsingu í Sunnlenskum byggðum. Á sama tíma ritaði hann umfangsmestu örnefnalýsingu Þingvalla frá upphafi, Þingvallaþanka, sem taldi á sjöunda hundrað örnefni. Voru það örnefni frá flestum fyrrnefndum heimildum auk fjölmargra annarra sem hann þekkti frá sínum uppeldisárum. Auk þess að lýsa allmörgum þeirra merkti Pétur örnefnin inn á útprentaðar loftmyndir með ótrúlegri nákvæmni.

Örefni í nútímanum

Lýsingar Péturs J. Jóhannssonar, sem og bók Matthíasar Þórðarsonar frá 1945, urðu síðar grundvöllur vinsællar bókar Björns Th. Björnssonar: Þingvellir – staðir og leiðir, sem kom út árið 1984 og var uppfærð í annarri útgáfu 1987. Sú bók átti eftir að kynna fjölmarga fyrir leyndardómum Þingvallahrauns. Árið 1987 kom einnig út rit Björns Þorsteinssonar sagnfræðings, Þingvallabókin, sem tók saman helstu örnefni á aðgengilegan hátt. Árið 2011 kom svo út bókin Þingvellir – þjóðgarður og heimsminjar eftir Sigrúnu Helgadóttur og var þá sérstaklega gerð grein fyrir fornum leiðum í Þingvallahrauni sem nú eru á fárra vitorði.

Örnefnamyndun á sér enn stað innan þjóðgarðsins á Þingvöllum en tengist þó ekki lengur búsetu á staðnum. Nýnefni tengd útivist hafa náð fótfestu í daglegu tali samhliða þeim gömlu, líkt og ákveðnir hlutar Silfru og ýmsir veiðistaðir meðfram strandlengju Þingvallavatns. Slíkt getur talist eðlileg og sjálfsögð þróun enda sýnir það áframhaldandi tengsl fólks við náttúru Þingvalla. Gömul og gleymd örnefni hafa þá fengið endurnýjun lífdaga sem kennileiti á helgistað þjóðarinnar.

Um örnefnaskrá Þingvalla

Örnefnin á þessari vefsíðu eru byggð á öllum áðurnefndum heimildum auk annarra þegar á við og er þeirra getið hverju sinni. Samantektin er byggð á örnefnaskrá Péturs J. Jóhannssonar, sem var færð inn á tölvutækt form af Einari Á.E. Sæmundsen þjóðgarðsverði og er nú aðgengileg öllum á vef Landmælinga Íslands.

Umsjónarmaður örnefnasamantektinnar er Gunnar Grímsson. Hér hafa langflest örnefni verið sameinuð í einn grunn og skilgreind enn nánar. Markmið þessarar samantektar er að auka aðgengi almennings að þjóðgarðinum á Þingvöllum og gera fólki kleyft að nálgast traustar heimildir um þá fjölmörgu lítt þekktu staði sem þar finnast. Þessi samantekt er ekki tæmandi og mun taka breytingum í tímans rás. Ef vitnað er í samantektina er ráðlagt að vitna beint í frumheimildir, nema ef nýtt efni er sérstaklega birt hér.