Sigurðarsel
„Þar fyrir norðan [Klukkustíg á Hrafnagjá] verður austurbarmurinn hár á dálitlum kafla, en vesturbarmurinn nær því jafn hrauninu, enda hækkar það þar á ný og hallar mót suðvestri; heitir sá halli Sigurðarsel. Sunnan í því er stór og falleg brekka, sem heitir Sigurðarselsbrekka; suður frá henni, vestur af Klukkustíg, er stór hóll, sem heitir Klukkustígshóll. Á gjánni, þar sem barmar hennar eru orðnir jafnir, er Selstígur; þar norður-frá eru fornar tóftir, sem má ske hafa verið hið virkilega Sigurðarsel. Skógur var um 1900 stærstur og sverastur í Sigurðarseli, en þar fyllist fljótt að snjó, sjerstaklega í norðaustan-hríðum“ segir í örnefnalýsingu Þingvallahrauns.
Sigurðarsel er forn selstaða í Þingvallahrauni. Selið er staðsett tæpan kílómetra norðan Klukkustígs í einum þykkasta hluta skógarins, aðeins í um 20 metra fjarlægð frá vestari brún Hrafnagjár. Hallurinn á Hrafnagjá milli Klukkustígs og Selstígs er kenndur við selið og heitir einfaldlega Sigurðarsel, og hluti hans nefnist Sigurðarselsbrekka.
Sigurðarsel er merkt á handteiknað kort Björns Pálssonar Þingvallaprests í sóknarlýsingu Þingvalla 1840 og er þar eignað Vatnskoti. Nafn selsins fylgir þó ekki með í lýsingunni og engar sögur hafa síðan farið af selinu. Ekki er vitað með vissu hversu gamalt selið er né hvort Vatnskotsbændur eða aðrir ábúendur Þingvalla höfðu í selinu.
Staðsetning Sigurðarsels var óþekkt á seinustu áratugum 20. aldar og var hér um bil fallið í gleymsku þar til 2011, þegar félagið FERLIR fann það fyrir tilviljun í gönguferð um Selstíg, ásamt sjálfboðaliðasamtökum um náttúruvernd sem þá unnu að lagfæringum leiða og gatna í Þingvallahrauni.
Uppdráttur mannvirkja í Sigurðarseli.
Gunnar Grímsson / Þjóðgarðurinn á Þingvöllum
Sigurðarsel: staðhættir
Rústir Sigurðarsels sjást einna best á vorin áður en gróður er farinn að vaxa. Afar erfitt er að greina ummerki þeirra á sumrin enda eru þær nú á kafi undir lyngi og kjarr er tekið að vaxa ofan á þeim.
Selið sjálft snýr samhliða Hrafnagjá og er um 15 x 7 m að utanmáli. Það er tví- eða þrískipt að innan og nokkuð dæmigert í útliti fyrir sel. Breidd veggja er um 2,5 m og hæð þeirra er 50-60 cm. Gengið er inn í syðsta rýmið á vesturhliðvegg og þaðan er innangengt í miðrýmið. Nyrsta rýmið hefur sérinngang og er hann einnig á vesturhlið. Hvert rými er um 2 x 2 m að innanmáli.
Óræð tóftabrot eru utan við vesturhliðina sem og lítil hola sem gæti hafa verið brunnur. Forvitnilegar þústir eru við norðurgaflinn og gætu þær verið til marks um stekkjaleifar eða annað fornt mannvirki. 20 metrum norðan selsins er lítil steinhleðsla sem hefur líklegast verið stekkur.
Fimm metrum vestan selsins er önnur bygging sem snýr samhliða því og er hulin kjarrgróðri. Hún er um 10 x 6 m að utanmáli og eru veggir hennar svipaðir að umfangi og í selinu. Inngangur er á austurhlið og er hún um 4 x 2 m að innanmáli. Tæpum 20 m vestan hennar er dæld sem svipar til brunnstæðis eða kolagrafar.
Sigurðarsel er langt frá alfaraleiðum en umferð hefur greinilega legið þar fram hjá um svonefndan Selstíg á Hrafnagjá, fáeinum metrum austan selsins. Nokkrir misgreinilegir slóðar virðast liggja vestan-að Selstíg frá Skógarkoti og Þórhallsstöðum. Fleiri slóðar, allgreinilegri, liggja ögn norðar og í stefnu á norðurenda Gildruholtsgjá. Engar heimildir eru um leið milli Sigurðarsels og Vatnskots en góðum vilja mætti sjá móta fyrir einum slíkum slóða milli staðanna meðfram Hábrún. Austan Selstígs liggja djúpir slóðar suður að Gjábakka og fjárhellum þeirra.