Ásgeirshellir

Google Maps

Ásgeirshellir (eða Hallshellir) er fjárhellir 550 m sunnan Skógarkots. Hann hefur verið notaður sem fjárskjól fyrr á öldum en hefur fallið í gleymsku á einhverjum tímapunkti. Hann er nefndur eftir Ásgeiri Jónassyni úr Hrauntúni, sem fann hann á ný árið 1902 og lýsir honum svo í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1937-1939:

„Skammt fyrir ofan Sauðasteina, vestan-við Veiðigötu, þar sem fyrst sjezt heim að Skógarkoti, þegar gatan er farin, er lítill hóll með smá-vörðubroti; hún heitir Hellisvarða. Þar undir er hinn frægi Hallshellir, sem um nokkur ár dró að sjer athygli fjölda fólks, og skal nú skýrt frá, hvernig hann fjekk frægð sína. Sumarið 1902 var sá, er þetta ritar, vinnumaður í Skógarkoti hjá Hannesi bónda Guðmundssyni. Þá var þar einnig drengur, sem heitir Kristján Schram og nú hefur í mörg ár verið starfsmaður hjá Gasstöðinni í Reykjavík. Eitt sinn, er við komum úr veiðiför neðan af vatni, hvíldum við okkur í laut þeirri, sem er norðan-við hólinn; fundum við þar litla holu, sem var að mestu lokuð af jarðvegi og lyngi. Þegar við rifum þar til, komum við niður í helli, auðvitað „fullan af myrkri". Síðar fórum við þangað með ljós og sáum, að hellirinn var talsvert stór, og garður hlaðinn um hann þveran; fyrir innan garðinn er hann svo lágur, að skríða verður á fjórum fótum. Næsta sumar, 1903, var á ferð á Þingvöllum enski rithöfundurinn Hall Caine. Hann hafði heyrt talað um helli þennan, skoðar hann og þykist finna eitthvað merkilegt við hann, sem hvorki hann sjálfur eða aðrir vissu hvað var. Svo var hellinum gefið nafn hans, og hann kallaður Hallshellir, og verður nú frægur mjög. Þyrpist þangað múgur og margmenni, sem allt verður vonsvikið á merkilegheitunum, sem von var, en gaf bóndanum í Skógarkoti góðan skilding, því að allir þurftu á fylgd að halda, og kostaði hún krónu í hvert skipti. Dýrð þessi mun hafa staðið eitt eða tvö sumur; svo fjaraði þessi heimska út, eins og fleiri, og er Hallshellir nú fyrir löngu fallinn í þá fyrri gleymsku.“