Ármannsgil
„Gilið fyrir norðan Skógarhólana og nær upp í Skál heitir Ármannsgil“ skrifar Pétur J. Jóhannsson í Þingvallaþönkum.
Enn fremur er ritað í örnefnalýsingu Þingvallaafréttar: „Vestan við Básöxl eru Skógarhólar (10), upp frá þeim er Ármannsbrekka (11) og Ármannsgil (12).“
Ármannsgil er gil í suðvestanverðu Ármannsfelli, ofan Skógarhóla og Bæjarfells. Gilið hefur einnig verið kallað Kaplagil. Leysingavatn rennur úr gilinu og myndar farveg yfir Skógarhóla, framhjá Þingvallarétt og endar ofan í Almannagjá norðan Leynistígs. Gilið tengist hollvættinum Ármanni, sem byggði sér að sögn bú við suðurrætur Ármannsfells í stutta stund áður en hann fluttist í helli norðanmegin í fjallinu. Ármannsgil hefur einnig verið merkt tæpum kílómetra austar.