Ármannsfell

Google Maps
Almannagja Sledaas

Ármannsfell

Ármannsfell er eitt helsta einkennisfjall Þingvalla. Fellið er móbergsstapi og hátindur þess er 764 metrar yfir sjávarmáli. Ármannsfell myndaðist undir jökli á ísaldarskeiðum á seinustu 100–200 þúsund árum. Fjallsræturnar eru grónar kjarri en hlíðarnar eru víðast uppblásnar. Nokkur mosagróður er efst á fjallinu.

Ármaðurinn í Ármannsfelli

Ármannsfell dregur nafn sitt líklegast af nafnorðinu ármaður, sem í gömlu máli var annars vegar notað yfir umboðsmann (konungs eða stórhöfðingja) eða embættismann og hins vegar yfir verndarvætt. Af síðarnefndu skýringunni má nefna að munnmæli lifðu innan Þingvallasveitar um ármann nokkurn í fjallinu sem fólk hét á, sér til fulltingis og liðveislu.

Þessi gömlu munnmæli urðu síðar efniviður í Ármannsrímur Jóns Guðmundssonar lærða árið 1637 og er ármaðurinn þar einfaldlega nefndur Ármann. Rímur þessar urðu síðar innblástur að skáldverkunum Ármanns þætti eftir Jón Þorláksson og Ármanns sögu yngri eftir Halldór Jakobsson á 18. öld. Sögur þessar eru ritaðar í stíl Íslendingasagna. Fjallsbúinn heitir nú Ármann Dalmannsson, hálftröll frá Noregi og náfrændi Bárðar Snæfellsáss. Ármann hafði vetursetu hjá Hallkatli nokkrum að Hrafnabjörgum er hann kom til Íslands. Síðar hafi Ármann stofnað býli undir Ármannsfelli en brátt flutt sig í helli uppi í fjallinu.

Sögur þessar blönduðust brátt þjóðtrúnni og hefur Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti þannig eftir munnmælum að oft hafi ljós sést í suðurhlíðum Ármannsfells og óvenjubjartar stjörnur hafi skinið yfir fjallinu.

Örnefni í og við Ármannsfell

Fjöldi örnefna er í Ármannsfelli og við rætur þess. Hér verður þeim flestöllum útlistað og verður farið rangsælis um fjallið.

Lýsingin hefst í vestri við Gagnheiði sem rennur saman við vesturhluta Ármannsfells. Þar heitir Stórhóll á rana einum sem kemur undan suðvestanverðu fellinu; vestan ranans er Svartagil og austan hans er Klömbrugil. Stór hvilft er í fellinu fyrir ofan Klömbrugil og heitir hún Skál.

Suður af Skál skagar stór múli niður úr Ármannsfelli sem nefnist Bæjarfell og er kenndur við Svartagilsbæinn, sunnan undir samnefndu gili. Bær þessi var að sögn áður nefndur Vegghamar eftir örnefni einu skammt innar. Skógi vaxinn dalur er innst í Bæjarfelli, Svartagilsmegin, og nefnist Botnsdalur. Þar er mynni Klömbrugils.

Gata nokkur liggur þvert yfir Bæjarfell og á því ofanverðu er grasflöt sem nefnist Leirdalur. Örnefnið Stekkjardalur hefur einnig verið haft um norðurenda hans og þar eru greinilegar stekkjarleifar frá Svartagili. Suðurhlíð Bæjarfells kallast Biskupsbrekkur og liggur þjóðleið meðfram rótum hennar. Hraunið undan brekkunum nefnist Biskupsbrekknahraun.

Bæjarfell er afmarkað í austri af djúpu gili sem ýmist er kallað Ármannsgil eða Kaplagil. Sögusagnir eru þar um óútskýrð ljós hátt uppi í fjallinu að næturlagi. Einhvers staðar ofan á fjallinu hefur verið talað um örnefnið Ármannsleiði. Annars er fátt um örnefni þar uppi.

Suðurhlíðar Ármannsfells

Austan Bæjarfells koma Skógarhólar, stundum nefndir Skógarhálsar. Hér er aðstaða fyrir hestamenn, skeiðvöllur og skilarétt sveitarinnar, Þingvallarétt. Þjóðleiðin frá Þingvöllum kemur hér upp að Ármannsfelli og liggur meðfram fjallsrótum þess í austurátt inn til hálendisins. Núverandi akvegur, Uxahryggjavegur, liggur að mestu ofan á gömlu leiðinni.

Austan Skógarhóla skagar annar fjallsmúli fram úr Ármannsfelli sem nefnist Fjárhúsamúli eða Húsmúli. Hann er kenndur við eyðibýlið Múlakot (eða Mosastaði) sem enn má sjá vestan undir múlanum. Austan Fjárhúsamúla kemur Grásteinsgil og er þá komið í skógi vaxið svæði sem nefnist Bolabás. Hér hverfur norðurendi Almannagjár inn í Ármannsfell. Bolabás er eins konar hvilft milli Fjárhúsamúla í vestri og Sleðaáss í austri.

Vinsæl gönguleið liggur um Sleðaás upp á Ármannsfell og á honum eru sérkennilegar jarðmyndanir. Sleðaás kemur fyrir í Grettis sögu og sagnir eru um grettistak við ásinn sem nefnist Grettishaf.

Sleðaássgjá kemur í beinu framhaldi af Sleðaási og við upphaf hennar liggur gamla þjóðleiðin – sem og núverandi akvegur – niður ásinn um svonefnt Bolaklif. Rétt austan við Bolaklif er fyrrum skilarétt Þingvalla, Bolaklifsrétt og þar liggur Réttargata inn í Hrauntún.

Svæðið við fjallsræturnar austan Sleðaáss heitir Kriki og liggur þjóðvegurinn hér þétt við fellið. Mikill framburður rennur úr giljum austan Krika niður á hraunið (Lambagjárhraun) og heitir þar Sandskeið. Þar hefst Nýja-Hrauntúnsgata og hefur að sögn þjóðleið legið þaðan niður að Þingvöllum til forna. Hér var gamla varnargirðing Þingvallasveitar og hefur girðingarstæðinu nú verið umbreytt í reiðgötu sem óformlega kallast Girðingargata.

Austan í Ármannsfelli

Austan af Sandskeiðum kemur Stóragil sem er tilkomumikið í návígi. Talsverðar gróðurtorfur eru hér í fjallshlíðunum. Hrauntúnsbændur áttu stekk undan gilinu sem nefndist Nýi-Stekkur en nákvæm staðsetning hans er óljós. Rétt handan Stóragils kemur Litlagil, ögn smærra. Framburður úr Litlagili og nærliggjandi skorningum hefur myndað miklar flatir undan Ármannsfelli sem heita Víðivellir og bera nafn með rentu. Héðan liggur Víðivallagata niður í Hrauntún. Þjóðleið nokkur lá héðan til suðausturs, Hrafnabjargavegur eða Prestavegur, með stefnu á Prestastíg á Hlíðargjá fram hjá Litla-Hrauntúni.

Skammt innan Víðivalla er Sláttubrekka, neðarlega í Ármannsfelli, líklegast slægjublettur frá Hrauntúni. Kippkorn norðar kemur stórt og mikið gil sem nefnist Stórkonugil eftir einhverri tröllskessu sem engar sögur fara af. Neðst í henni heitir Vopnalág – og fylgja því engar útskýringar. Sjá má móta fyrir stórum gígbarmi efst á Ármannsfelli ofan Stórkonugils.

Innan af gilinu er komið að stórri valllendisflöt sem nefnist Hofmannaflöt. Hér voru slægjur frá Hrauntúnsbændum og skiptust leiðir til norðurs og norðausturs. Annar angi Hrafnabjargavegar liggur áleiðis að Hofmannaflöt úr suðaustri og er allgreinilegur.

Norður af Hofmannaflöt er Lágafell sem er samfast Ármannsfelli að sunnanverðu. Lítill stapi við fellsmörkin heitir Meyjarsæti. Tvö gil eru hvor sínu megin við Meyjarsæti og kallast Kluftir eða Sandkluftir. Núverandi akvegur liggur upp hlíðar Ármannsfells um svokallaða Smjörbrekku og yfir Smjörbrekkuháls. Hóll nokkur þar nálægt hefur borið nafnið Óveðurshnjúkur en hefur ekki verið staðsettur nákvæmlega.

Norðan í Ármannsfelli

Fyrir innan Smjörbrekkuháls kemur Sandkluftavatn. Áður hét vatnið Sandvatn og kristallast það í nærliggjandi örnefnum: Sandvatnshlíðum og Sandvatnskvísl. Nú hefur einhver samruni orðið á örnefnunum Sandvatni og Kluftum.

Þjóðleiðin liggur hér frá Þingvöllum til Vesturlands og fór það áður eftir vatnsborðsstöðu Sandkluftavatns hvoru megin var farið um svæðið.

Vestur af Sandkluftavatni koma aflangar brekkur úr Ármannsfelli með mörgum ásum og giljum. Stærsta gilið kallast Ormavallagil og myndar framburður úr því samnefnda velli skammt innar. Vestan gilsins kemur höfði undan Ármannsfelli sem nefnist Grasdalahnúkur. Norðan hans eru þrír grasi grónir dalir, Grasdalir. Hér er aftur komið inn að Gagnheiði og hringnum lokað.

Eru þá flestöll örnefni í og við Ármannsfell upptalin.