Hér er nyrsti hluti fremra Mjóafells.
Þingvellir Þjóðgarður
Mjóafell fremra (eða Fremra-Mjóafell) er um 1600 metra langur móbergshryggur austan Ármannsfells. Það er um 140 metra hátt og hæsti punktur þess er um 383 metrar yfir sjávarmáli. Það er fyrir sunnan Mjóafell innra og á milli þeirra er skarð, sem kallast Goðaskarð. Fremra-Mjóafell er lægra en hið innra en snarbratt og miklir klettahamrar eru í vesturhlíðum þess. Mjóafellsgjá (eða -gjár) liggja út um báða enda fellsins. Vestan þess er Hofmannaflöt og austan þess Mjóafellshraun og Skjaldbreiðarhraun. Þar eru takmörk Bláskóga. Meðfram fellinu er nokkur lággróður sérstaklega í formi birkis og víðis. Í og við fellið er ennfremur nokkuð grösugt. Skammt austur af fellinu taka þó miklar mosabreiður sem teygja sig yfir norðurhluta sigdalsins að Hrafnabjörg og Tindaskaga.