Litla-Hrauntún

Google Maps
Ornefni Litla Hrauntun Nordursvaedi Utsyni
Afskekkt eyðibýli í útjaðri skógarins sem löngu var fallið í gleymsku. Horft til suðurs frá nyrðri bæjarrústunum.

Eftirfarandi texti er byggður á greininni Týndu eyðibýlin í Þingvallahrauni eftir Gunnar Grímsson sem birtist í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 2024; sem og lokaritgerð Gunnars við Háskóla Íslands, Kortlagning eyðibyggðarinnar á Þingvöllum með flygildum og hitamyndavél frá 2020. Sá hinn sami skrifar þennan texta.

Litla-Hrauntún

Litla-Hrauntún er fornt eyðibýli langt norður í Þingvallahrauni. Litla-Hrauntún og systurbýli þess, Hrauntún, koma fyrst fram í bundnu máli í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns árið 1711:

Hrauntún [hið syðra] hefur kallað verið örnefni eitt í skóginum, sem munnmæli eru að byggt hafi verið fyrir pláguna, meinast síðan í plágunni í eyði lagst hafa og allajafna síðan í auðn verið. Hefur hér í þessu takmarki selstaða verið frá Þingvöllum svo langt fram sem menn til muna og er enn nú, og vita menn ekkert framar hér um að undirrétta.

Annað Hrauntún [Litla-Hrauntún] hefur og kallað verið í skóginum í norðaustur frá þessu og skammt eitt þar í frá, og sér þar til girðinga svo sem af túngarði. Meinast þetta Hrauntún eins byggt verið hafa fyrir pláguna sem hið fyrra, en hvort bæði Hrauntúnin hafi undir eins byggð verið, eða hafi bærinn fluttur verið og bíhaldið svo nafninu, það hafa menn ekki heyrt, og meinast þetta Hrauntúnið með sama móti eyðst hafa í plágunni sem hið fyrra. Hér um vita menn ekki heldur framar að segja.“

Hrauntúnið síðarnefnda var kallað Litla-Hrauntún í sóknarlýsingu Þingvalla 1840 til aðgreiningar frá Hrauntúni hinu syðra, sem var þá komið í byggð á nýjan leik. Nafnmynd þessi hefur síðan haldist á staðnum.

Eyðibyggðin í Þingvallahrauni

Yfirlitskort þetta sýnir þekktar byggðaleifar í og við þjóðgarðinn á Þingvöllum. Litla-Hrauntún er rauðmerkt innst í landinu.

Mynd þessi birtist í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 2024, bls. 29.

Staðhættir Litla-Hrauntúns

Litla-Hrauntún er í 200 metra hæð yfir sjávarmáli og í útjaðri Bláskóga, um 50 metrum sunnan varnargirðingar þjóðgarðsins. Staðurinn er suðaustur af Víðivöllum og hér um bil mitt á milli Ármannsfells og Hlíðargjár. Nokkuð í suðaustur af Litla-Hrauntúni rís Brúnkolluhöfði upp úr hraunbreiðunni og við hann er Prestahraun.

Handan Prestahrauns kemur Hlíðargjá og heitir þar Prestastígur á gjánni þar sem barmar hennar verða jafn háir. Þaðan liggur forn þjóðleið, Prestavegur eða Hrafnabjargavegur fram hjá Litla-Hrauntúni upp að Víðivöllum. Annar angi leiðarinnar liggur spölkorn norðan Litla-Hrauntúns með stefnu á Hofmannaflöt, milli Ármannsfells og Mjóafells. Minnst er á þessa leið í Sturlungasögu.

Þremur kílómetrum suðvestan Litla-Hrauntúns er systurbýli þess, Hrauntún hið syðra. Ekki er ljóst hvort leiðir hafi legið beint á milli staðanna. Svonefnd Víðivallagata liggur hins vegar milli Hrauntúns syðra og Hofmannaflatar, fram hjá Víðivöllum og í sjónhendingu frá Litla-Hrauntúni.

Engin örnefni hafa varðveist í allra næsta nágrenni Litla-Hrauntúns fyrir utan tvö refagreni.

Litla-Hrauntún

Horft til suðurs innan úr eystri bæjartóftinni í Litla-Hrauntúni.

Eyðibyggð á úthjörum

Engar sögur hafa varðveist af Litla-Hrauntúni og af þeim sökum ríkir talsverð dulúð yfir staðnum. Ekki er fullljóst hvert erindi þeirra var sem hér byggðu mannvirki á úthjörum Þingvallasveitar við vatnslausan hálendisjaðarinn.

Ritheimildir utan Jarðabókarinnar eru af skornum skammti og innihaldsrýrar, nema hvað að þar má finna einn grasblett. Þetta segir Ásgeir Jónasson frá Hrauntúni syðra í örnefnalýsingu sinni.

Ein forvitnileg frásögn kemur frá Sigurveigu Guðmundsdóttur, sem dvaldi í Hrauntúni syðra sumarið 1919, þá aðeins níu ára gömul. Sigurveig fór gjarnan með mat inn að Hofmannaflöt þar sem bændurnir unnu við heyskap. Bændurnir sögðu henni að fara aldrei af götuslóðanum á bakaleiðinni, því fornar rústir leyndust úti í hraunhólunum og þar gat verið reimt.

Eina greinargóða lýsingin á Litla-Hrauntúni er rituð af Matthíasi Þórðarsyni þjóðminjaverði í bók hans Þingvöllur – alþingisstaðurinn forni frá 1945, bls. 81–82:

„Nyrzt er Hrauntún, nefnt Litla-Hrauntún. Sér þar fornar tóftir á 3 stöðum, og kemur það nokkurn veginn heim við frásögn Árna Magnússonar í jarðabók hans. […]

Sjá má greinilega hvort-tveggja bæjarstæðið, sem átt er við, og eru á hinu fyrra nýlegri tóftir, enda seltóftir frá síðari öldum, um 100 m. eru í milli.

Á eystri staðnum er ein fornleg bæjartóft, sem skipt er í þrennt.

Um 40 m. fyrir norðan vestari tóftirnar eru hinar þriðju; aflöng, ferhyrnd tóft, mjög fornleg, skiptist í tvennt, og 6 m. fyrir vestan hana hringmynduð tóft. Sennilega hefur hér verið sel.

Það er lítt hugsanlegt, að hér hafi verið 2 byggð býli samtímis, en séu hér raunar 2 bæjarstæði, mun síðari bærinn hafa verið byggður einhvern tíma eftir að hinn fyrsti hafði farið í eyði.“

Lítið tún í hrauni

Grasbletturinn í Litla-Hrauntúni.

Týnda-Hrauntún

Matthías Þórðarson friðlýsti Litla-Hrauntún sem fornleifar 1927 en þrátt fyrir það var nákvæm staðsetning staðarins löngu fallin í gleymsku í lok 20. aldar.

Ekki er langt síðan Litla-Hrauntún fannst á ný. Hekla Þöll Stefánsdóttir fornleifafræðingur gekk fram á mannvirkjabrot vestast í Litla-Hrauntúni árið 2012 og taldi þá líklegt að hér væri hið litla tún í hrauni, sem Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti hafði áður merkt skammt frá.

Sex árum síðar fann Gunnar Grímsson Litla-Hrauntún í sjálfstæðri leit með notkun flygilda og gerð þrívíddarlíkana af hrauninu. Ári síðar var ráðist í takmarkaða kjarnaborun sem staðfesti að hér eru forn mannvirki.

Nánar er greint frá leitinni að Litla-Hrauntúni í ritgerðinni Kortlagning eyðibyggðarinnar á Þingvöllum með flygildum og hitamyndavél, bls. 46–53.

Litla-Hrauntún

Horft til Hrafnabjarga frá Litla-Hrauntúni að hausti. Grasbletturinn í forgrunni.

Litla-Hrauntún: staðarlýsing

Ekki er að furða þótt Litla-Hrauntún hafi týnst, því lyng, fjalldrapi og kjarr umvefur nú mannvirkin og gerir þau illgreinanleg á vettvangi. Hér á eftir verður mannvirkjum Litla-Hrauntúns lýst eins og kostur er líkt og þau birtast á yfirborðinu.

Litla-Hrauntún

Uppdráttur af Litla-Hrauntúni og afstaða rústanna hver til annarrar.

1. Lítið tún í hrauni

Lýsingin hefst við lítinn grasblett – lítið tún í hrauni – sem ekki er nema um 20 m í þvermál. Annars staðar sést lítils háttar stargróður stinga sér upp úr bláberjalyngi og undan birkirunnum.

Fáeinum metrum norðan við grasblettinn er lág hæð og efst á henni eru leifar mannvirkis. Skjannahvítt birkitré vex upp við rústina sem snýr austur-vestur, mælist um 18 x 7 metrar að utanmáli og skiptist í þrennt. Veggir mannvirkisins rísa mest um 12 cm upp úr yfirborðinu en aftur á móti eru hólfin niðursokkin og ná allt að einum metra niður.

Gengið er inn á suðurhlið í austurrýmið, sem er 7 x 3 m að innanmáli. Þaðan virðist innangengt í miðrýmið sem er um 3 x 3 m á stærð.

Vestasta rýmið er öllu óljósara en hin tvö og hefur sérinngang á vesturgafli. Á norðurhlið tóftarinnar vottar fyrir enn öðru rými, 4 x 2 m að innanmáli.

Hugsanleg smátóft, 3 x 3 m að innanmáli, liggur undan brekkunni suður af þessu og leifar af garðlagi gætu leynst í kjarrinu ögn vestar.

Matthías Þórðarson þjóðminjavörður kallar þessar mannvirkjaleifar „seltóftir frá síðari öldum“ og segir þær „bera nú með sér, að þar hafi ekki verið sel æði-lengi.“ Sú ályktun er ekki órökrétt enda minnir hún á mörg dæmigerð sel. Þetta gæti einnig verið mistúlkun á texta Jarðabókarinnar sem vísar til seljabúskapar í Hrauntúni syðra.

Sel voru eins konar sumarbýli í úthögum, þar sem búfénaður var geymdur snemmsumars og mjólkaður. Oft voru sel reist ofan á gömlum bæjarrústum og þá kom fyrir að bæir voru reistir ofan á gömlum seljum.

Vestursvæði Litla-Hrauntúns

Uppdráttur af mannvirkjabrotum á vestursvæði Litla-Hrauntúns.

2. Eystri bæjartóftin

Næsta mannvirkjarúst í Litla-Hrauntúni er nákvæmlega 100 m austan selstöðunnar svokölluðu. Þar situr aflöng húsarúst á lágri hæð með sæmilegu skjóli undan norðanvindi.

Rústin er aflöng og rétthyrnd, allt að 21 x 7,5 m að utanmáli og snýr suðvestur-norðaustur. Útveggir hennar eru afar grónir og hafa breitt vel úr sér; veggþykkt er allt að 3 m.

Norðurhelmingur rústarinnar var hulinn birkikjarri sem hefur líklegast afmyndað hana að einhverju leyti. Innanrýmið er alls um 13 x 2 m og gæti verið tvískipt fyrir miðju. Óljóst er hvar inngangur hefur verið. Einn staður á miðri austurlanghlið kemur þó til greina.

Við suðurgaflinn mótar fyrir tveimur lágum dældum sem gætu verið viðbyggingar. Innangengt virðist í aðra dældina úr vestri.

Matthías Þórðarson þjóðminjavörður kallar þetta þrískipta bæjartóft í bók sinni og má vel vera að svo sé raunin. Götuslóði liggur vestan við mannvirkjabrotin og þar eru nokkrar forvitnilegar dældir og þústir.

Austursvæði Litla-Hrauntúns

Uppdráttur af meintri bæjarrúst á austursvæði Litla-Hrauntúns.

3. Mjög fornleg fyrirbæri

Þriðji og síðasti staðurinn er u.þ.b. 120 m norðvestur af þessu og 40 m norðan selsins svokallaða við grasblettinn. Þar er breið, mosagróin hæð og lítil hraunklöpp. Undan henni má greina umfangsmikla upphækkun.

Upphækkun þessi snýr suðaustur-norðvestur og ber þess merki að vera manngerð. Mögulega leynast hér mannvirkjabrot frá nokkrum tímabilum.

Ögn heillegri mannvirki má greina efst á upphækkuninni og snúa þau samsíða henni. Þar ber helst á tvískiptri tóft að norðanverðu upp við áðurnefnda hraunklöpp. Hún er um 11 x 6 m að utanmáli. Innanrýmin eru hvor um sig 4 x 2 m að stærð og mögulegir inngangar eru á báðum langhliðum. Útmörk veggja eru víða óljós.

Óræðari mannvirkjabrot má greina við suðurgaflinn. Ekki er ljóst hvort þau séu hluti af sömu byggingu eða annað sérstakt mannvirki. Þar mótar fyrir veggjaleifum sem mælast u.þ.b. 8 x 7 m að utan; innanrýmið er um 4 x 2 m. Enn aðrar veggjaleifar, afar óræðar, má greina við suðurendann.

Sex metrum vestar, utan upphækkunarinnar, er sérkennileg hringlaga tóft. Veggir hennar eru 3–4 m þykkir og hafa breitt vel úr sér í tímans rás. Tóftin er allt að 13 m í þvermál og 5–6 m að innanmáli. Inngangur er óljós en gæti verið til suðvesturs.

Matthías Þórðarson þjóðminjavörður telur hér líklegast vera seltóftir og er það ekki óhugsandi. Staðurinn er afar forvitnilegur því margt virðist leynast undir sverði. Hér má minnast á greinarskrif séra Guðmundar Einarssonar Þingvallaprests frá 1938, þar sem hann segist hafa séð skálatóft fornmanna norðaustur af Hrauntúni hinu syðra.

Norðursvæði Litla-Hrauntúns

Uppdráttur af mannvirkjaleifum á norðursvæði Litla-Hrauntúns.

Sögur í skóginum

Hér hefur helstu mannvirkjum Litla-Hrauntúns verið lýst eins og þau birtast greinarhöfundi á yfirborðinu. Þessi lýsing er ekki óskeikul og munu frekari rannsóknir aðeins varpa meira ljósi á eðli þessa merka staðar.

Sögur af Litla-Hrauntúni hafa fyrir löngu þagnað og horfið af vörum fólks. Aftur á móti leynast sumar sögur enn undir yfirborðinu og bíða þess að einhver rifji þær upp. Slíkt er aðeins hægt með nákvæmum og vandvirkum fornleifarannsóknum og nýtur staðurinn strangrar friðunar með lögum.

Saga Litla-Hrauntúns er samofin sögu náttúrunnar í bókstaflegum skilningi. Þeir sem áður hjuggu hér niður skóginn liðsinna honum nú óafvitandi. Hærra hlutfall lífrænna efna í mannvirkjarústunum bætir vaxtarskilyrði gróðurs og hefur náttúran löngu áttað sig á því.

Nú festir gróðurinn rætur sínar í sögum litla túnsins í hrauninu og nærist á þeim. Það veltur á okkur hvort við viljum rifja þær upp áður en þær hverfa endanlega og renna saman við laufblöðin og trjábörkinn í útjöðrum Bláskóga.

Litla-Hrauntún

Loftmynd af Litla-Hrauntúni. Mannvirkin eru samofin náttúrunni.