Kolsgjá

Google Maps
Ornefni Kolsgja Nordur

Kolsgjá

Kolsgjá er ævafornt örnefni í Bláskógum. Þess er getið af Ara fróða Þorgilssyni í þriðja kafla Íslendingabókar:

„En maðr hafði sekr orðit of þræls morð eða leysings, sá er land átti í Bláskógum. Hann er nefndr Þórir kroppinskeggi, en dóttursonr hans er kallaðr Þorvaldr kroppinskeggi, sá er fór síðan í Austfjörðu ok brenndi þar inni Gunnar, bróður sinn. Svá sagði Hallr Órækjusonr. En sá hét Kolr, er myrðr var. Við hann er kennd gjá sú, er þar er kölluð síðan Kolsgjá, sem hræin fundust.

Land þat varð síðan allsherjarfé, en þat lögðu landsmenn til alþingis neyzlu. Af því er þar almenning at viða til alþingis í skógum ok á heiðum hagi til hrossahafnar. Þat sagði Úlfheðinn [Gunnarsson, lögsögumaður árin 1107-1116] oss.“

Ekki er vitað með vissu hvaða gjá bar þetta nafn og virðist staðsetningin hafa gleymst í aldanna rás. Staðsetning Kolsgjár varð fræðimönnum hugleikin á 19. og 20. öld þar sem örnefnið gæti gefið frekari vísbendingar um landareign Þóris kroppinskeggja – og þannig veitt frekari innsýn í aðdraganda alþingissetningar á Þingvöllum.

Matthías Þórðarson þjóðminjavörður segir svo um Kolsgjá í bók sinni Þingvöllur – alþingisstaðurinn forni, 1945, bls. 55-56:

„Það örnefni er nú löngu týnt, en Árni Magnússon segir, að séra Þorkell Árnason í Skálholti (1703–7) hafi heyrt gamalt fólk bera séra Engilbert Nikulásson á Þingvöllum (1617–69) fyrir því, að Kolsgjá sé „sunnanvert vid pláts þad er Leirur kallast, nordur frá Þingvelli.“

Matthías hefur þessa frásögn eftir Kristian Kålund í ritinu Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island (I. bindi, bls. 95). Enn fremur ritar Matthías um Kolsgjá:

„Er hér engin ástæða til að rengja þessa skýrslu, enda er hér gjá milli Flosagjár og Leiragjár, í sömu stefnu og þær, og er raunar eins konar framhald af þeim. En ekki er fullvíst af þessu einu, hvar land Þóris [kroppinskeggja] hefur verið: hann kann að hafa myrt Kol eða hulið lík hans fjarri bæ sínum.“

Nokkrum árum áður skrifar Matthías Þórðarson neðanmálsgrein við örnefnalýsingu Þingvallahrauns eftir Ásgeir Jónasson (Árb. Fornlfél. 1937-1939, bls. 156) að Leiragjá „[...] mun vera Kolsgjá sú, er Ari fróði getur um í Íslendingabók.“

Sigurður Vigfússon skrifar einnig um Kolsgjá (Árb. Fornlfél. 1880-1881, bls. 38) og byggir þá á sömu munnmælum frá Árna Magnússyni:

„Upp á Leirunum eru tvær gjár, sín hvorum megin, og liggja upp og ofan, líkt og allar gjár í Þingvallarsveit, hin vestri er einn armr út úr Almannagjá, hin að austanverðu er nokkuð stór gjá, og er vatn í henni á sumum stöðum, hún er nú kölluð Leiragjá. Eg get eigi séð neitt á móti því, sem Árni Magnússon kveðst hafa heyrt, að þessi hin eystri gjá gæti verið sú hin gamla Kolsgjá og hún hefði heitið þannig neðan til og mætti þá kalla það sunnanvert við Leirana.“

Kolsgjá

Vatnsfyllt álma í hinni svokölluðu Kolsgjá.

Athygli skal vekja að á síðustu áratugum hefur nokkur tilfærsla orðið á gjáa-örnefnum við Leirurnar. Nafnið Leiragjá (upphaflega Leirugjá) hefur færst yfir á gjásprunguna vestan Leira, þá er kemur í beinu framhaldi úr Almannagjá norður af Tæpastíg og samhliða Hvannagjá. Örnefnið Sandhólagjá hefur teygt úr sér til norðurs og verið notað um syðri hluta Leiragjár milli Sandhólastígs og Leirustígs. Að sama skapi hefur örnefnið Sleðaássgjá lengst til suðurs og verið notað um nyrðri hluta Leiragjár milli Jónsstígs og Leirustígs.

Kolsgjá hefur eftir þetta almennt verið sögð suður af Leirum, annaðhvort sem eldra nafn á Leiragjá eða öðrum nærliggjandi gjásprungum. Matthías Þórðarson virðist eiga sérstaklega við um gjá þá, er liggur hér um bil í framhaldi af Flosagjá, norðaustan Vallastígs. Hún hefur síðan verið nefnd Kolsgjá á kortum Landmælinga Íslands.

Gjá þessi hefur hliðrast lítillega til austurs miðað við Flosagjá. Hún er um 650 metra löng og margklofin, víðast hvar 5-10 metra djúp og er syðri hluti hennar dýpstur. Þar er uppsprettuvatn og hefur vestari barmur hennar sigið um 2-3 metra miðað við þann eystri. Er norðar dregur klofnar gjáin í tvennt og liggja sprungurnar samhliða hvor annarri. Sú vestari er stærri, stórgrýtt í botninum og skerst milli tveggja stórra hóla sem nefnast Skyrklifshólar. Norðan hólanna verður gjáin að mjóum ræmum og sameinast öðrum sprungusveimum uns þeir hverfa undir lækjarframburð á Leirum.

Hvort þessi tiltekna gjá – eða aðrar sprungur í kring – hafi verið hin eiginlega Kolsgjá skal ósagt látið, enda verður seint hægt að komast til botns í þeim málum. Meta þarf sannleiksgildi þessara 18. aldar munnmæla úr fórum Árna Magnússonar í fræðilegu samhengi en ekki í einfaldri örnefnasamantekt. Hér fær örnefnið Kolsgjá að njóta vafans og helst óbreytt á áðurnefndri gjásprungu, líkt og það hefur verið á kortum síðustu áratugi, svo það geti lifað áfram í þjóðarminninu.