Klukkustígur og Klukkustígsleið
Gjárnar á Þingvöllum hafa ávallt verið farartálmar þeirra er ferðast um svæðið. Aðeins er hægt að þvera gjár og sprungur á tilteknum stöðum, líkt og um höft, skörð og rima þar sem þær hliðrast eða fjara út. Þessir tilteknu staðir eru kallaðir stígar á Þingvallamáli. Hugtakið stígur á hér strangt til tekið ekki við um eiginlega gönguleið í heild sinni, heldur stað þar sem farið er yfir gjá, þ.e. að það felur í sér stig. Hugtakið er því keimlíkt orðinu klif og felur ekki aðeins í sér ákveðinn hluta leiðar heldur einnig náttúrulegt fyrirbrigði. Stígar á Þingvöllum voru þannig aðgreindir frá öðrum samgönguhugtökum líkt og slóðum, götum og vegum og í raun liggja oft fleiri en ein leið um sama stíginn.
Klukkustígur er einn þessara stíga og er hann staðsettur á miðri Hrafnagjá. Þar hefur gjáin hliðrast til austurs og myndað aflangan rima, þar sem hægt var að komast af neðri gjábarminum upp á hinn efri, allt þar til akvegur var lagður þar yfir árið 1974. Þingreiðarmenn og aðrir ferðalangar, sem komu úr austri frá Laugarvatnsvöllum eða Skálholtshrauni, fóru um Klukkustíg á leið sinni til Þingvalla og hefur hluti þjóðleiðarinnar við stíginn jafnan verið nefndur Klukkustígur – líkt og stígurinn sjálfur – en einnig um Klukkustíg eða Klukkustígsleið. Hér er seinasta nafnmyndin notuð yfir leiðina sjálfa til aðgreiningar frá stígnum. Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti, sem tók saman yfir 600 örnefni á Þingvöllum, lýsir leiðinni svo í Þingvallaþönkum, bls. 9:
„Klukkustígur á Hrafnagjá hefur verið önnur af tveimur aðalleiðum frá Þingvöllum yfir gjána til forna, hin var Hallstígur. Leiðin lá frá Þingvöllum fram hjá Skógarkoti og útaf þessum gamla hraunvegi (sem lá niður í Vatnsvik) hjá Ölkofrahól, framhjá gamla býlinu Þórhallastöðum, austur á milli Klukkuhóla, yfir Hábrún á Klukkustíg. Þaðan sunnan við Hellishæðina (norðvestan í henni eru sauðahellar sem Gjábakkabændur notuðu allt þar til þjóðgarðsgirðingin var færð út fyrir þá) og yfir Bæjargjá sunnan við Þúfhól. Síðan er stefnan tekin suður yfir Heiðargjá og yfir hana farið fyrir ofan neðsta Nikulásarhól. Eftir það liggur leiðin meðfram rótum Hrafnabjargarháls suður fyrir Stelpuhelli (sem er í Undirganginum. Það er eldrás, sem nær upp í Eldborg á Hrafnabjargarhálsi. Í rásinni eru hellar, jarðföll og brýr, en rásin hverfur á löngum köflum þótt trúlega sé hún undir jarðskorpunni). Skammt þar fyrir sunnan var komið á leiðina, sem lá frá Þingvöllum yfir Hrafnagjá á Hallstíg. Þarna hafa því verið krossgötur, því beint áfram suður yfir Skálholtshraun, lá hin gamla leið frá Þingvöllum til Skálholts, um austurrætur Lyngdalsheiðar. Hin leiðin austur yfir Hrafnabjargarháls um Barmaskarð, lá til Laugardals og liggur þar enn.“
Björn Th. Björnsson ritar um mögulegan uppruna nafnsins Klukkustígs í bók sinni Þingvellir – staðir og leiðir, bls. 107:
Leiðin milli Klukkustígs og Þórhallastaða er auðkennd af því, að hún liggur milli tveggja strýtulaga hóla með miklum gróðri, sem heita Nyrðri og Syðri Klukkuhóll. Þegar hinsvegar var farið að vestan og stefnt á Klukkustíg, höfðu menn mjög glöggan vita fyrir augum, þar sem er Klukkustígshóll, strýtulaga eða klukkulaga klettahóll á efri brún Hrafnagjár, og bar hann beint yfir stíginn. Þegar nú er ekinn nýi þjóðhátíðarvegurinn til austurs, ber hólinn einnig beint framundan þegar nálgast Hrafnagjá. Líklegt er að hóllinn hafi upphaflega heitið Klukka eða Klukkuhóll, og stígurinn við hann kenndur, en síðan hefur stígurinn haft betur í þeim viðskiptum og hóllinn orðið að beygja sig undir nafngiftina Klukkustígshóll. Það er með hreinum ólíkindum hversu mörg klukkuörnefni eru á og umhverfis Þingvelli. Sumpart hefur jarðmyndunin sjálf séð fyrir því, en ef til vill hefur alþingisklukkan stóra einnig verið heimafólki rík í huga. En hér var þó fleiri klukkum hringt, því forystufé gekk með bjöllur í horni, og lengur, að ég hef fyrir satt, en á nokkrum öðrum stað á landinu.
Björn lýsir hluta Klukkustígsleiðar í sömu bók, bls. 155:
Loks er að nefna eina götu, sem er þó orðin æði torsæ vegna uppgróðurs, en það er forna þingleiðin af Klukkustíg, um hraunið milli Nyrðri og Syðri Klukkuhóls, um Þórhallastaði og fyrir neðan Skógarkot, þaðan sem hún hefur legið vestur um hraunið, yfir haftið norðan við Háugjá og á Vellina, eða þó líklegar um Sandhólastíg. Á síðari tímum hefur leið þessi lítt verið farin, nema helzt af heimamönnum milli Skógarkots og Gjábakka, en vafalaust er þetta elzta þingleiðin austan og austur, þeirra sem fóru um Laugarvatnsvelli eða Skálholtshraun. Klukkustígur sýnist hafa verið mun greiðfærari leið og hallaminni en klungrin á Gjábakkastíg, áður en hann var lagfærður á 19. öld. Með því að hreinsa upp þessa götu og merkja væri fornri Þingvallaheimild bjargað, – því heimildir eru ekki einasta í bókum, heldur skrifuðu hestshófar og mannsfætur einnig sögu landsins.
Auðsýnt er að Klukkustígsleiðin vestan Hrafnagjár hefur verið fjölfarin, því hún samanstendur af mörgum djúpum götum sem allar liggja frá Klukkustíg yfir að Skógarkoti og þræða sig mitt á milli Nyrðri- og Syðri-Klukkuhóls. Leiðin hefur þó orðið æ fáfarnari í kjölfar vegbóta á Gjábakkastíg og Hallstíg á Hrafnagjá – og samhliða tilkomu hestakerra og sjálfrennireiða – og með veglagningu yfir Klukkustíg 1974 missti þessi forna þingleið enn meira vægi. Síðan þá hefur leiðin hægt og rólega dottið úr minni fólks og inn undir botngróður Bláskóga.
Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd (Sjá) klipptu meðfram Klukkustígsleiðinni árið 2011 og hnýttu bláa borða í trjágreinar til auðkenningar en frekari tilraunir til merkingar og viðhalds á vegum þjóðgarðsins höfðu ekki erindi sem erfiði og ekki bætti úr skák að leiðin var nú botnlangi, þar sem Klukkustígurinn sjálfur er kominn undir akveg og illfær göngufólki.
Nú hefur Klukkustígsleiðin vestan Hrafnagjár verið kortlögð í þaula og landsvæðið umhverfis leiðina unnið í hárnákvæmt þrívíddarlíkan með notkun flygildis, þar sem hver einasta þúfa er dregin fram og hægt er að greina nær alla troðninga á svæðinu. Skrásetjari er Gunnar Grímsson, fornleifafræðingur og landvörður á Þingvöllum, og sá hann um stikun leiðarinnar út frá þessum gögnum haustið 2024.
Svo vel vill til að önnur, ónefnd leið lá einnig um Klukkustíg fyrr á tímum og hefur hún nú einnig verið stikuð. Þessi leið liggur frá Klukkustíg um svæði er nefnist Rif, við lægri barm Hrafnagjár, suður að Vatnsviki. Örnefnið Rif skírskotar eflaust til hrísrifs ábúenda í Þingvallahrauni og má vel hugsa sér að þeir hafi farið þessa leið – sem nefnist hér Rifsgata – í sínum erindagjörðum. Leiðin er stikuð niður að Landsbankareitnum svokallaða og tengist hún þar Gjábakkavegi.
Klukkustígsleið frá Skógarkoti að Klukkustíg (2,6 km)
Gangan um Klukkustígsleiðina hefst við túnfótinn rétt austan Skógarkots. Gengið er eftir stekkjargötu Skógarkotsbænda í austurátt og í gegnum þykkan grenitrjáareit. Þá er staðið efst á bogadreginni hæðarbrún og fyrir neðan hana glittir í ræktað tún. Hæðin nefnist Stekkjarhæð og í túninu er hið friðlýsta fornbýli Þórhallsstaðir (eða Þórhallastaðir), kenndir við Þórhall ölkofra sem bruggaði öl handa þingmönnum á söguöld og varð alræmdur fyrir að kveikja í Goðaskógi í gáleysi.
Síðast var búið á Þórhallsstöðum (sem nefndist þá Ölkofra) í lok 17. aldar en eftir það varð staðurinn að nytjalandi frá Skógarkoti. Þar reistu Skógarkotsbændur stekk sinn (sem nefndist Gamli-Stekkur) og fjárhús. Kálgarður var einnig reistur úr bæjarhúsunum um aldamótin 1900 og hefur hann líklegast staðið norðan fjárhússins á bæjarhólnum. Skammt austar er hlaðinn brunnur sem heldur oft vatni fram eftir sumri.
Áfram er förinni heitið og er gengið yfir lága klettaskoru á sunnanverðu túninu út í strjálgróið kjarrlendi. Hér nefnist landið Leiti og hallar því eilítið til austurs; þar fyrir neðan heita Eyður. Farið er um grasbletti og mosaþembur þar til landinu fer að halla upp í móti á ný. Þar heitir Lágabrún og fer nú kjarrið að þykkna verulega.
Á þessum slóðum klofnar Klukkustígsleiðin í tvo meginstrauma og liggja þeir samsíða hvor öðrum næsta kílómetrann eða þar um bil. Um 50-100 metrar eru á milli þeirra. Hér er farið eftir syðri leiðinni sem er greinilegri og hefur mögulega verið fjölfarnari. Nyrðri leiðin er ögn beinni og býður upp á frábært útsýni en er afar gróin og því er erfitt að fikra sig eftir henni án aðstoðar GPS-tækja.
Báðar leiðirnar liggja mitt á milli Nyrðri- og Syðri-Klukkuhóls. Hólarnir hafa áður staðið vel upp úr umhverfi sínu og verið leiðarmerki þeirra sem hér gengu um en nú er gróðursæld mikil og hólarnir falla vel inn í landslagið. Hér er gott útsýni til vesturs heim að Skógarkoti og Þórhallsstöðum.
Austan Klukkuhólanna jafnast hallinn út og nefnist þar Hábrún. Hér er skógurinn hvað þykkastur og nefnist Viðarklettsskógur eftir kletti einum ögn norðar. Undirgróður er hér mikill og verður ekki þverfótað fyrir bláberjum á haustin. Vísast er þó að halda sér við gönguleiðina, því hér leynast djúpar sprungur. Þær eru framhald af svonefndri Litlugjá nokkuð sunnar. Gatan liggur fram hjá einni slíkri sprungu og þaðan er komið inn í stóra eyðu í skóginum. Þar blasir við undurfallegt, stakstætt birkitré og skammt austar sameinast nyrðri Klukkustígsleiðin við þá syðri.
Áfram liggur gatan eftir kjarri og eyðum á víxl. Nú magnast vegniðurinn hægt og rólega og fyrr en varir má sjá ökutæki steypast niður Hrafnagjá. Hér er komið að sjálfum Klukkustíg, þar sem áður var gengið upp og niður gjána. Hér er komið að enda Klukkustígsleiðar vestan Hrafnagjár.
Frá Klukkustíg að Vatnsviki um Rifgötu (1,9 km)
Eins og fyrr kom fram liggur önnur leið einnig um Klukkustíg. Leið þessi er allgreinileg og liggur meðfram fláanum á neðri barmi Hrafnagjár – sem nefnist Rif – suður að Vatnsviki. Örnefnið Rif skírskotar líklegast í hrísrif ábúenda fyrr á tímum og má vel hugsa sér að þeir hafi farið þessa götu í slíkum erindagjörðum. Leiðin á sér ekkert nafn í örnefnaskrám en hér er stungið upp á að hún heiti Rifgata og vísi þar með í horfna lifnaðarhætti. Rifgata er merkileg samgönguheimild út af fyrir sig og endurspeglar horfnar heimildir um sögu Þingvalla sem aðeins má lesa með því að rýna vel í landið. Rifgata hefur nú verið endurreist og stikuð niður að svokölluðum Furuskógi (Landsbankareit). Þess hefur verið gætt, að alltaf er farið eftir gömlum götum og enginn nýr slóði ruddur.
Rifgata tengist við Klukkustígsleiðina og blasir hún við á hægri hönd þegar horft er á Klukkustíg úr vestri. Þar sést vel inn eftir botni Hrafnagjár og liggur gatan í átt að gjánni. Ganga skal varlega eftir stikuðu leiðinni, því hér leynast gjótur.
Rifgata sveigir brátt til vesturs um lágan hól og liggur í gegnum þykkan kjarrskóg. Þegar komið er úr kjarrinu birtist tilkomumikið útsýni yfir Þingvallavatn og að Arnarfelli. Hér sést vel yfir Rif – við lægri barm Hrafnagjár – og sjá má að landið hefur notið góðs af friðun því nú er birkið hávaxið og með svera trjáboli.
Gatan liggur meðfram Rifi um lynggróna skógareyðu sem er uppfull af krækiberjum og bláberjum á haustin. Hér hallar landinu lítillega til suðurs og er gangan auðveld yfirferðar. Smám saman þykknar kjarrið og er gengið niður litla brekkubrún og þaðan inn í barrtjáalund sem hefur verið nefndur Furuskógur eða Landsbankareitur. Hér má sjá glókolla í trjátoppunum og gnægð hrútaberja í skógarbotninum.
Brátt er komið inn á beinan vegslóða sem var lagður af skógræktarfólki á 20. öld og þar enda stikurnar. Áfram liggur Rifgata í suðvestur fram hjá Böðvarshóli – þar sem búið var til forna – niður að Vatnsviki. Hér verður þó gengið niður um áðurnefndan vegslóða í suðurátt þar til hann tengist gamla Gjábakkaveginum. Þá er svo gengið til vesturs og fram hjá Böðvarshóli upp að akveginum við Vellankötlu.
Klukkustígsleiðin og Rifgata, frá Skógarkoti niður að Vellankötlu, eru samtals um fjórir og hálfur kílómetri á lengd og það tekur að jafnaði um einn og hálfan klukkutíma að fara þar um. Gangan er tiltölulega auðveld og hallalítil í heild sinni en fer þó um ójafnt og þýft landslag á köflum. Gestir þjóðgarðsins eru hvattir til að skoða þennan lítt sótta hluta Þingvallahrauns og upplifa sögu staðarins á tveimur jafnfljótum. Með því að ganga þessar leiðir er óbeint stuðlað að verndun menningarminja, því hvert fótatak heldur við þessum fornu leiðum og gerir þær greiðari fyrir næsta göngumann. Hægt er að gera sér hringferð um leiðirnar með því að leggja við bílastæðið hjá Nautatöngum og ganga Skógarkotsveginn inn að Skógarkoti og væri heildarlengdin þá um sjö kílómetrar.