Hvannagjá

Google Maps
Hvannagja

Hvannagjá

„Fyrir norðan Snóku rennur Leiralækur (298); litlu norðar er Tæpistígur (299) á Almannagjá; fyrir norðan hann heitir gjáin Hvannagjá (300); á henni er Leynistígur (301), þar, sem vegurinn liggur yfir hana; svo hverfur hún undir Ármannsfell vestast í Bolabás“ segir í örnefnalýsingu Þingvallahrauns.

Pétur J. Jóhannsson segir í Þingvallaþönkum: „Hvannagjá tekur við í gjáaröðinni þarna fyrir innan, vallgróin og falleg. Í austurenda hennar er mikið urðarhaft eins og víðar í Almannagjá, en innan við það er gjá, sem er opin niður á láglendið, liggur frá austri til vesturs og hækkar í botninn eftir því sem hún nálgast efri brún Almannagjár og myndar ágætan göngustíg upp á brúnina. Hún er grasigróin og heitir Klauf. Hallinn frá Tæpastíg að gjánni Klauf heitir Hvannagjáarbrekka. Fyrir innan Klauf að Leynistíg er gjáin samanhrunin, en standberg á smá kafla, sem snýr að veginum. Leynistígur er aðalleiðin frá Þingvöllum til Borgarfjarðar og Norðurlands og hefur verið það frá upphafi Íslandsbyggðar.“

Hvannagjá er heitið á hluta Almannagjár milli Tæpastígs og Leynistígs. Hvannagjá er um 1300 metra löng . Leiralækur rann áður óhindraður niður í eina af afgjám Hvannagjár, norðan Tæpastígs. Botn Hvannagjár er myndaður af framburði úr ýmsum farvegum Leiralækjar og að einhverju leyti úr leysingafarvegum frá Ármannsfelli. Hvannagjá tvístrast í ýmsar misbreiðar hliðargjár en meginálma hennar, 400 metra löng, er 30-40 metra breið og 5-10 metra djúp. Við norðurenda hennar er haft, sem hægt er að klöngrast yfir í næstu álmu og kallast svæðið Klauf. Lægri barmur Hvannagjár kallast Hvannagjárbrekka eða Hvannabrekka, þakin birkiskógi.

Hvannagjá

Sumarnótt í Hvannagjá.