Hofmannaflöt
Hofmannaflöt er stór grasflöt við austurenda Ármannsfells. Hún er afmörkuð af Meyjasæti og Lágafelli í norðri og Fremra-Mjóafelli í austri. Flötin er mynduð af leysingaframburði úr fjöllunum.
Hofmannaflöt hefur löngum verið þekktur áfangastaður, enda í alfaraleið þeirra sem ferðast til Þingvalla af hálendinu. Núverandi akvegur, Uxahryggjavegur, kemur þar niður um hlíðar Ármannsfells. Skammt austan akvegarins liggur gamli Kaldadalsvegurinn um Sandkluftir niður á Hofmannaflöt og sameinast þar Eyfiðingavegi, sem liggur úr norðaustri frá Skjaldbreið og þræðir sig milli Mjóufjalla um Goðaskarð.
Frá Hofmannaflöt lá þjóðleiðin áður meðfram Ármannsfelli í átt að Þingvöllum en nú er hún að mestu leyti horfin undir akveg. Önnur þjóðleið, hinn forni Prestsvegur (eða Hrafnabjargavegur), liggur frá suðurenda Hofmannaflatar með stefnu í suðaustur, yfir Hlíðargjá, um svonefndan Prestastíg og þaðan að Hrafnabjörgum. Að lokum liggur heybandsvegur Hrauntúnsbænda, Víðivallagata, milli Hofmannaflatar og Hrauntúns.
Hofmannaflöt er sögusvið í Ármanns sögu yngri, sem samin var á 18. öld upp úr Ármanns rímum Jóns lærða Guðmundssonar árið 1637. Eru rímurnar enn fremur samdar upp úr fornum munnmælum úr sveitinni. Í Ármannssögu er sagt frá glímu- og kappleikum á Hofmannaflöt og voru þar saman komnir Ármann í Ármannsfelli og Bárður Snæfellsás, auk ýmissa hálftrölla og fornmanna sem þá bjuggu við rætur Skjaldbreiðar.
Guðbrandur Vigfússon, textafræðingur og einn helsti fræðimaður Íslands á 19. öld, ritar um tilurð örnefnisins í ritdómi sínum um Ármannssögu (sem hann telur nývirki og óáreiðanlega heimild) í Nýju félagsriti árið 1859, bls. 135:
„[...] gamalt getur [örnefnið Hofmannaflöt] ekki verið. Það er fyrst, að eg veit, í fornkvæðum (danskvæðum) og rímum, að menn nefna hofmenn göfga menn t.d. „hofmenn stunda í háfan púnkt“ (í Skáld-Helgarímum). Hofmannaflöt munu menn á síðari öldum hafa nefnt svo, af því að höfðingjar settu þar tjöld sín áðr þeir riði á þíng. Einhver sögusögn mun þó fyrir því, að landvættir hafi haldið með sér leiki á Hofmannaflöt. Til þess bendir að lítið fell við flötina er kallað Meyjasæti; fellið er setberg, og segir sagan, að meyjar hafi setið þar og horft á leikina, en fellið er svo hátt, að vart mun vera talað um menska leiki.“
Flötin er einnig kölluð Ármannsflöt í einstaka heimildum en sú nafngift virðist ekki hafa verið útbreidd og gæti jafnvel hafa verið rangnefni utansveitarmanna.
Hofmannaflöt var nytjuð til slægna af Hrauntúnsbændum á 19. og 20. öld. Flötin var ein helsta lífæð hjáleigunnar og var í raun eini verulegi slægjublettur hennar, sem þurfti annars að slá einstaka grasbletti innan skógarins. Gaf flötin af sér um 20 hestburði af heyi árið 1877 og reyndu Hrauntúnsbændur eftir bestu getu að afgirða hana og hlífa henni fyrir ágangi ferðafólks.