Hlíðargjá
„Hlíðarflár eru dálítill blettur vestan-í Hrafnabjargahálsi. Norður-af þeim opnast gjá mikil, sem heitir Hlíðargjá (76), sjest fyrir henni alla leið inn í Skjaldbreið, og heitir Söðulhólagjá (77) fyrir norðan Prestastíg (78). Vesturbarmur hennar er að mestu eins og áður-nefndur Hallur, hann er hærri en hraunið að vestanverðu, og heitir Raftahlíð (79) allt að Prestastíg“ segir í örnefnalýsingu Þingvallahrauns.
Pétur J. Jóhannsson segir í Þingvallaþönkum: „Gjá sú sem er fyrir vestan Gjábakkatúnið, og er með höfuðstefnu frá suðvestri til norðausturs, sem aðrar gjár í hrauninu og nær lítið sundurslitin alla leið inn að Sandgíg á Skjaldbreiðarhrauni, hefur ekkert heildarnafn. Syðsti hluti hennar frá Gjábakka inn að Þúfhól, sem er suðaustur af Klukkustíg, heitir Bæjargjá. Næsti kafli gjáarinnar heitir Gildruholtsgjá og nær inn á Hlíðarfláa, sem eru vestur af miðjum Hrafnabjörgum. Þar fyrir innan tekur við breið og djúp gjá með miklum halla, sem snýr að sigdældinni. Þessi gjá heitir Hlíðargjá og hallinn á gjánni Raftahlíð. Innan við sjálfa gjána, þar sem hún grynnkar mjög og verður óregluleg og slitrótt, er stígur yfir, sem heitir Prestastígur.“
Hlíðargjá er ein stærsta gjáin á Þingvöllum. Hún er 4,5 km löng, allt að 85 m breið og 20-30 m djúp. Hún er eiginlegt framhald Hrafnagjár til norðurs. Skammt sunnan hennar er Gildruholtsgjá og svæðið þar á milli kallast Hlíðarflár. Vestari barmur Hlíðargjár hefur sigið og kallast brekkan undan honum Raftviðarhlíð. Þaðan fær gjáin nafn sitt. Sunnarlega við hlíðina er örnefnið Lind.
Hlíðargjá er allhrikaleg á köflum: djúp, breið og stórgrýtt. Austan Innri-Gapahæðar verður lítil hliðrun á gjánni og þar er hægt að komast yfir hana um Hlíðarstíg. Þar var áður landamerki Þingvalla og síðar Þingvallaþjóðgarðs, þar til mörk hans voru færð út 2004. Norðan Hlíðarstígs er gjáin mest um sig. Rúmum 1 km norðar verða gjábarmarnir jafnháir og þar liggur varnargirðing þjóðgarðsins yfir gjána um Prestastíg. Norður-af honum fjarar gjáin hægt og rólega út og verður að lokum að misstórum gjásprungum.