Hamraskarð
Hamraskarð er örnefni úr þingskaparhætti Grágásar, þar sem segir að „Goði skal ganga í Hamraskarð ok setja niðr þar dómanda sinn, ef hann vil dóm nefna.“ Örnefnið Hamraskarð hvarf hægt og rólega úr almennri málnotkun í tímans rás og var staðsetning þess talin óljós á 19. öld. Nafnið hefur nú verið fest við skarð eitt í Almannagjá, sunnan Snorrabúðar, þar sem gangfært er niður úr Almannagjá.
Matthías Þórðarson þjóðminjavörður segir um Hamraskarð í bók sinni Þingvelli, 1945, bls. 136-137:
„Örnefnið Hamraskarð er nú ekki til á Þingvöllum, og hefur menn greint á um það, hvar það hafi verið. Sigurður Guðmundsson hélt því fram (1861) í bók sinni, Alþingisstaður hinn forni (bls 60-61), að það hafi verið kjafturinn á Brennugjá, en Vilhjálmur Finsen hélt því fram (1870) í útleggingu sinni af Grágás (bls. 38), að það hafi verið þetta skarð í gjábakkann lægri, sem vegurinn liggur um og nú hefur verið rætt um hér á undan.
Virðist skoðun Vilhjálms vera rétt og í alla staði eðlileg, þótt ekki verði að vísu færðar fram ákveðnar sannanir fyrir henni. Myndi sennilega óhætt að taka hið forna nafn á skarðinu upp aftur. Mynni Brennugjár getur tæplega kallazt Hamraskarð. Fremur klettaskora; en allir sjá, að hér er um gjá að ræða. Þetta gjárop er auk þess svo þröngt, að það virðist allsendis óhæft til að setja þar niður alla dómendur í alla fjórðungsdómana.
Eftir staðháttum innan þinghelginnar sýnist Hamraskarð hljóta að hafa verið vestan ár og raunar helzt í eystri hamrana við Almannagjá, gjábakkann lægri, en þar er skarðið útsunnan-við Lögberg eina skarðið, sem kallazt getur Hamraskarð og jafnframt er vel til þess fallið, að þar hafi mátt setja niður alla dómendurna í alla fjórðungsdómana. Önnur skörð hér í eða milli hamra eru of þröng eða óveruleg til slíkrar athafnar. Þetta skarð hjá Lögbergi var að öllu leyti hið ákjósanlegasta.“