Hallstígur
„Hallstígur (7) er syðst á Hrafnagjá, skammt fyrir norðan Arnarfellsenda (8). Þaðan og inn í Hallvík (9) nær vatnið alveg að hallanum á vestari gjárbarminum“ segir í örnefnalýsingu Þingvallahrauns.
Þá segir í örnefnaskrá Arnarfells: „Austan við [Þvottu] gengur lítill klettur fram í fjöruna, Markaklettur (30). Þar eru mörk milli Arnarfells og þjóðgarðsins. Upp af klettinum er stígur yfir Hrafnagjá, sem heitir Hallsstígur (31). Hann er skammt neðan við þjóðveginn.“
Pétur J. Jóhannsson segir þá í Þingvallaþönkum: „Syðsti stígurinn á [Hrafnagjá] er Hallstígur og er þar, sem vegurinn frá Þingvöllum austur með vatninu liggur yfir gjána. Hallstígur hefur verið aðal leiðin yfir gjána allt frá landnámi þar til á seinni hluta nítjándu aldar að farið er að laga Gjábakkastíg til umferðar. Það eru til skráðar frásagnir ferðamanna, sem fóru milli Laugardals og Þingvalla á síðasta tug átjándu aldar, að þeir fóru Hallstíg og einnig um viðhald á sömu leið, skráð 1830. Neðri gjábarmurinn frá Hallstíg að Gjábakkastíg og fláinn niður að undirlendinu er kallaður Hallinn og undirlendið vestur að vatninu Gjáarendar. Suðaustur frá Hallsstíg, vestast í skógartöglunum, er skógarhæð með vörðu á. Hún heitir Kambsvarða (32) og er hornamark.“