Grýla
„Við Vatnskotsbæ er vík ein, sem heitir Grýla (208); er í henni uppsprettuvatn og er hún notuð sem vatnsból frá Vatnskoti“ segir í örnefnalýsingu Þingvallahrauns.
Helga Símonardóttir Melsteð bætir við um Grýlu í örnefnaskrá sinni: „Austan við Breiðanes, meðfram Túninu (sjá síðar), er vík, sem nefnd er Grýla (29). Nafnið var þá haft til að hræða börn frá víkinni, því hún er hættulegri en aðrar vegna þess, að mikill leir er í botninum og hægt er að festast í honum, ef vaðið er út í hana. Í Grýlu er mjög aðdjúpt, nema innst. Í þessari vík var oft lent, ef þannig viðraði, raunar oftar en í Naustavík, því þar var grýttara. Grýlusker (30) er í Grýlu. Oft myndaðist mikið brim (í sunnanátt) í Grýlukjafti (31), en svo kallaði Vatnskotsfólkið sundið á milli Grýluskers og Breiðaness. Þar myndaðist oft svo mikil alda, að erfitt var að komast inn og út úr víkinni. Neyzluvatn var sótt í Grýlu, en í henni er uppsprettuvatn, innst, vatnslögn lá heim í bæ. Austan við Grýlu er Túntanginn (32), sem nær nokkuð út í vatnið. Fyrrnefnt Grýlusker er rétt vestan við hann.“