Gildruholtsgjá
„Nokkurn spöl suðaustur-af Svínhólum eru Gildruholt (69). Þau eru á vesturtakmörkum Hrafnabjargaháls (70). Hallar frá þeim í allar áttir, nema austur, en eru hærri miklu Svínhólum. Þau eru á austurbarmi Gildruholtsgjár (71), sem byrjar í Gjábakkahrauni (72), skammt austur-af Hallstíg, og heitir Bæjargjá (73) þangað til vegurinn liggur yfir hana á móts við Gjábakkabæ; svo fær hún hitt heitið norður-fyrir Gildruholt. Þar hverfur hún á dálitlum kafla, og heita þar Hlíðarflár (74). Bilið milli Hrafnagjár og Gildruholtsgjár heitir einu nafni Torfa (75). Gildruholtsgjá er að því leyti frábrugðin Hrafnagjá og Almannagjá, að vestri barmur hennar hefur sigið rjett niður með þeim eystri án þess að gjáin opnaðist nokkuð að ráði, svo að þar getur fremur kallazt berg en gjá. Hlíðarflár eru dálítill blettur vestan-í Hrafnabjargahálsi. Norður-af þeim opnast gjá mikil, sem heitir Hlíðargjá (76)“ segir í örnefnalýsingu Þingvallahrauns.
Pétur J. Jóhannsson skrifar í Þingvallaþönkum: „Gjá sú sem er fyrir vestan Gjábakkatúnið, og er með höfuðstefnu frá suðvestri til norðausturs, sem aðrar gjár í hrauninu og nær lítið sundurslitin alla leið inn að Sandgíg á Skjaldbreiðarhrauni, hefur ekkert heildarnafn. Syðsti hluti hennar frá Gjábakka inn að Þúfhól, sem er suðaustur af Klukkustíg, heitir Bæjargjá. Næsti kafli gjáarinnar heitir Gildruholtsgjá og nær inn á Hlíðarfláa, sem eru vestur af miðjum Hrafnabjörgum. Þar fyrir innan tekur við breið og djúp gjá með miklum halla, sem snýr að sigdældinni. Þessi gjá heitir Hlíðargjá og hallinn á gjánni Raftahlíð. Innan við sjálfa gjána, þar sem hún grynnkar mjög og verður óregluleg og slitrótt, er stígur yfir, sem heitir Prestastígur.“
Gjáin er nefnd eftir holtunum sem hún liggur um og er afar áberandi í landslaginu. Heildarlengdin er um 1800 m og hefur vestari barmurinn sigið um 15-25 m. Barmurinn hefur þó ekki rekið til vesturs að neinu ráði.