Gerði er heitið á suðausturhluta túnsins í Skógarkoti. Ásgeir Jónasson frá Hrauntúni segir um það:
„Jón Kristjánsson, er bjó í Skógarkoti 1840—84, stækkaði þar túnið talsvert til suðurs; sú stækkun er kölluð Gerði; þar voru kvíaær bældar á nóttum, þegar búið var að hirða af því heyið. Þangað voru einnig kvíarnar fluttar; var ánum hleypt út eftir kvöldmjaltir, og lágu þær hreyfingarlausar, þar til birta tók.“