Fjósagjá og fjósatún eru örnefni sem vísa til þess tíma þegar það var fjós á þessum slóðum áður fyrr.
Þingvellir Þjóðgarður
Fjósagjá er vatnsfyllt gjásprunga, um 150 metra löng, sem takmarkar tún Þingvalla í austri. Gjáin kemur í ljós í leirunni skammt frá vatnsbakka Þingvallavatns og sker sig síðan í gegnum vesturenda Silfruhóls. Þar liggur núverandi akvegur yfir gjána. Þaðan heldur hún áfram og hverfur inn í Dagmálahól, þar sem gjáin kemur úr hólnum úr norðri kallast hún Túngjá. Sunnan Dagmálahóls heitir Fjósaklif á gjánni, þar var áður brú og heimreið frá Stöðli heim að Þingvallabæ. Brúin var fjarlægð upp úr 2012 vegna fúaskemmda og var ákveðið að reisa ekki nýja brú í hennar stað til að hlífa túninu. Nafnið er væntanlega dregið af fjósi Þingvallabæjar upp við Fjóshól og/eða stöðlinum vestan Fjósagjár, þar sem ær og kýr voru mjólkaðar.