Bæjargjá
„Nokkurn spöl suðaustur-af Svínhólum eru Gildruholt (69). Þau eru á vesturtakmörkum Hrafnabjargaháls (70). Hallar frá þeim í allar áttir, nema austur, en eru hærri miklu Svínhólum. Þau eru á austurbarmi Gildruholtsgjár (71), sem byrjar í Gjábakkahrauni (72), skammt austur-af Hallstíg, og heitir Bæjargjá (73) þangað til vegurinn liggur yfir hana á móts við Gjábakkabæ; svo fær hún hitt heitið norður-fyrir Gildruholt“ segir í örnefnalýsingu Þingvallahrauns.
Pétur J. Jóhannson bætir við um gjána:
„Gjá sú sem er fyrir vestan Gjábakkatúnið, og er með höfuðstefnu frá suðvestri til norðausturs, sem aðrar gjár í hrauninu og nær lítið sundurslitin alla leið inn að Sandgíg á Skjaldbreiðarhrauni, hefur ekkert heildarnafn. Syðsti hluti hennar frá Gjábakka inn að Þúfhól, sem er suðaustur af Klukkustíg, heitir Bæjargjá. Næsti kafli gjáarinnar heitir Gildruholtsgjá og nær inn á Hlíðarfláa, sem eru vestur af miðjum Hrafnabjörgum. Þar fyrir innan tekur við breið og djúp gjá með miklum halla, sem snýr að sigdældinni. Þessi gjá heitir Hlíðargjá og hallinn á gjánni Raftahlíð. Innan við sjálfa gjána, þar sem hún grynnkar mjög og verður óregluleg og slitrótt, er stígur yfir, sem heitir Prestastígur.“
Bæjargjá er gjá við hraunbrún skammt austan Hrafnagjár. Hún er framhald af ónefndum, slitróttum gjásprungum í Mjóanesshrauni sunnan Arnarfells. Gjáin kemur bersýnilega fram og er mest um sig skammt sunnan eyðibýlisins Gjábakka, sem gjáin er kennd við og er alls um 2500 metra löng. Hún er þó afar slitrótt á köflum og mætti frekar kalla margar gjár heldur en eina samfellda. Vestari gjábarmurinn hefur sigið lítillega miðað við þann eystri. Skammt frá Gjábakka kallast Göngustígur á Bæjargjá, þar við er Lambahellir og þaðan má sjá móta fyrir ógreinilegum slóðum niður að Ólafsdrætti. Um 300 metrum innar er annar stígur og hóllinn Blesi; liggja þar Gjábakkavegur og núverandi akvegur í gegn. Landspildan milli Bæjargjár og Hrafnagjár kallast Torfa. Þegar komið er austan Klukkustígs tekur gjáin töluverðan sveig til austurs og kallast þá Gildruholtsgjá.