Arnarklettur

Google Maps
Arnarklettur 2022

Arnarklettur

„Arnarklettur ber nafn af erni þeim, sem um langt skeið verpti í Arnarfelli. Sat hann oft á klettinum og vakti yfir silung í Öxará“ skrifar Guðmundur Davíðsson þjóðgarðsvörður í Leiðsögn um Þingvelli, bls. 17.

Arnarklettur er staðsettur á efri brún Almannagjár, rétt suðvestan Hamraskarðs. Hann er um 3 m hár, klofinn í tvennt og gróinn á toppnum. Nafnið kemur af munnmælum, að þar hafi örn eitt sinn sest niður.

Í bók Össurar Skarphéðinssonar, Urriðadans, er höfð saga eftir Guðbirni Einarssyni frá Kárastöðum sem hann heyrði frá Símoni Péturssyni í Vatnskoti. Þegar Símon var ungur verpti örn oft í Arnarkletti. Örninn fór í birtingu og tók stóra urriða í Öxará. Örninn settist niður við Biskupshóla þar sem styst var í land eftir að urriða var náð. Eftir það flaug hann með urriðann upp á Arnarklett sem blasir við fyrir ofan.

Símon sagði að þeir hefðu stundum legið í leyni í stórþýfðum móa hjá þinginu og þegar örninn var kominn inn fyrir bakka ruku þeir upp með öskri. Þá styggðist hann og missti urriðann sem þeir hirtu og tóku heim í matinn.  

Arnarklettur í Almannagjá

Þó enginn sé lengur örninn er kennileitið áberandi í annars gróðurlausum klettabörmum Almannagjár.