Arnarfell
Arnarfell er eyðibýli í Þingvallasveit.
Bærinn, sem stóð undir samnefndu fjalli, var áður í eigu Þingvallakirkju og var lengst af hjáleiga Þingvallabæjar. Ekki er vitað hvenær búseta hófst þar fyrst en búskapur þar var nokkuð stopull og landgæði lítil. Bærinn er sagður nýbyggður í visitasíu Þórðar biskups Þorlákssonar árið 1679 en við skrif Jarðabókarinnar árið 1711 hafði bærinn verið í eyði í um 10 ár. Bærinn var einnig sagður í eyði í sóknarlýsingu Þingvalla 1840 en hafði þar stuttu áður verið byggður í „fáein ár með lítilli heppni“.
Arnarfell var í ábúð nær samfleytt á seinni helmingi 19. aldar en ábúendaskipti voru tíð og þar bjuggu a.m.k. 11 mismunandi fjölskyldur fram til 1933, skömmu eftir þjóðgarðsmyndun, þegar bærinn lagðist í eyði og varð eign Kirkjujarðasjóðs. Lítið sem ekkert er ritað um sögu fólksins á Arnarfelli fram að þessum tímapunkti.
Árið 1934 fékk Matthías Einarsson læknir ábúð á Arnarfelli. Hann lét reisa nýtt bæjarhús 1938 og hafði þar ráðsfólk og lítils háttar sauðfjárbúskap. Sumarhús lét hann byggja skammt sunnan bæjarins 1941 og hét það Arnarnes. Dvaldi hann þar heilu sumrin með fjölskyldu sinni.
Matthías Einarsson varð þekktur fyrir tilraunir sínar til hreindýraræktunar á Arnarfelli. Hreindýrin voru flutt í flugvélum til Arnarfells frá Austurlandi í nokkrum áföngum árin 1939-1941 með misgóðum árangri. Þó náði Matthías að koma upp litlum stofni 1942 og voru hreindýrin sögð afar gæf líkt og heimalningar. Tilraun Matthíasar var sérstök að því leyti að hann flutti eingöngu inn hreinkálfa en engin fullvaxta dýr.
Hreindýrin höfðust við í stórri girðingu í undirlendinu vestan Arnarfells í samneyti við aðra búgripi og fengu lýsi, maís og töðu til fæðubótar. Ekki leið þó á löngu þar til hreindýrin drápust eitt af öðru og bentu niðurstöður krufninga til meltingarfærasýkinga. Búskapur lagðist endanlega af á Arnarfelli 1947 og var jörðin í eigu afkomenda Matthíasar fram til 1998 þegar hún var innlimuð í þjóðgarðinn á Þingvöllum.
Uppdráttur af bænum undir Arnarfelli.
Gunnar Grímsson / Þjóðgarðurinn á Þingvöllum
Lýsing jarðar og landamerki
Þar sem Arnarfellsbærinn var áður hjáleiga Þingvalla deildi hann flestum landgæðum innan landamerkja Þingvallabæjar. Eftir þjóðgarðsmyndun var landareign Arnarfells afmörkuð við fellið sjálft og nærumhverfi þess. Landamerkin lágu frá sprunginni klöpp á Langatanga, sunnan Arnarfells, yfir að Markavörðu við hinn forna Prestsveg, þaðan að Hallstíg og svo niður að Markakletti í Ólafsdrætti. Þaðan réð vatnsborð Þingvallavatns mörkum suður að Langatanga.
Arnarfellsbærinn stóð í undirlendinu suðvestan fellsins. Gamla bæjarstæðið er skammt frá vatninu, sunnan í ónefndum hól með vörðubroti á toppnum. Þar eru grunnar tveggja sambyggðra steinsteypuhúsa sem getið er í úttekt Þingvallahreppstjóra frá 5. maí 1933. Vestara húsið var 9*5,65 m að stærð og reist í kringum 1930. Hið eystra var um 20 árum eldra og ögn smærra.
Sama úttekt greindi einnig frá fjórum fjárhúsum með járnþökum – þar af einu ónýtu – sem og illa förnu fjósi með fjórum básum og lélegum hesthúsakofa sem gat rúmað tvo hesta. Bærinn og útihúsin voru metin gjörónýt í annarri úttekt hreppstjóra árið 1938 og hafa þau líklegast verið rifin skömmu síðar.
Grjót- og torfhlaðin tóft er við vesturhlið gömlu bæjarhúsanna og hefur inngang á suðurgafli. Sunnan við hana mótar fyrir matjurtagarði. Það gæti verið sami garður og er sýndur á túnakorti Arnarfells frá 1920.
Austan bæjarhúsanna eru ummerki tveggja annarra smátófta og jarðrask. Tvær varasamar gjásprungur liggja samsíða hvor annarri að bæjarstæðinu og upp á áðurnefndan hól.
Um 100 metrum sunnar stóð íbúðarhúsið sem Matthías Einarsson læknir lét reisa 1938. Fá ummerki eru sjáanleg eftir það fyrir utan jarðrask og bárujárnsplötur á víð og dreif um túnið. Húsið var um 200 fermetrar að stærð og var rifið um 1998.
Um 70 metrum austan þess eru leifar grjóthlaðins útihúss og hlöðu sem reist var á svipuðum tíma og íbúðarhúsið. Milli útihússins og bæjarins er raskað svæði og má þar greina fleiri mögulega húsagrunna auk einnar súrheysgryfju. Þar sunnan við er hár barrtjálundur sem afkomendur Matthíasar Einarssonar gróðursettu. Vestan hans stóð skemma og braggi og þar má einnig sjá litla rétt eða stekk.
Syðst við trjálundinn, upp við vatnið, hefur sumarhúsið Arnarnes staðið. Þar við er hlaðinn garður sem afmarkar um 400 fermetra svæði.
Ítök, nytjar og samgöngur
Arnarfell var góð veiðijörð. Ræktað tún á Arnarfelli er um sjö hektarar að flatarmáli en annars eru landgæði rýr. Víða má þó finna gras- og kjarrbletti í undirlendinu norðan túnsins, sem og í fjallshlíðunum, sem bændur hafa eflaust nýtt fyrir hrísrif og slægjur. Örnefnið Sláttulág í sunnanverðu fellinu er vitnisburður um það. Fyrir þjóðgarðsmyndun hafa Arnarfellsbændur haft nytjar í Þingvallahrauni og nýttu sér þar Nýja-Þingvallahelli sem fjárskjól snemma á 20. öld.
Stekkur Arnarfells er í um kílómetra fjarlægð norðan af bænum í svonefndri Stekkjarlaut, beint vestur af Stapatjörn. Þar er einnig grjóthlaðin rétt. Djúp og fjölfarin stekkjargata liggur milli bæjarins og stekksins. Þá er getið um hreindýrarétt milli Stapa og Stapatjarnar.
Ekki er vitað hvort eða hvar Arnarfellsbændur höfðu í seli. Selstöðu eina má þó finna norðan Arnarfellsenda og kallast hún nefnist Fornasel; hún hefur almennt verið eignuð Þingvallabæ. Sunnan selsins er langur grjótgarður sem virðist hafa afgirt gjörvallt Arnarfell. Með aðgætni má enn má móta fyrir leifum hans en ekkert er vitað um aldur hans né Fornasels.
Gömul þjóðleið liggur meðfram austanverðu Arnarfelli, milli Mjóaness og Hallstígs. Hluti hennar við fellsræturnar er nú undir akslóða. Leiðin að Arnarfellsbænum liggur frá þjóðleiðinni niður svonefnt Klif um Langatangagjár niður í Sláttulág og þaðan meðfram fjallsrótunum.