Almannagjá

Google Maps
Almannagja Fjoldi

Almannagjá

Almannagjá er um átta kílómetra löng gjá í vestanverðu Þingvallahrauni milli Þingvallavatns og Ármannsfells. Almannagjá ákvarðar hér um bil austurmörk Norður-Ameríkuflekans og milli hennar og Hrafnagjár í austri (sem og Gildruholtsgjár og Heiðargjár) liggur mikil sigdæld.

Tugir örnefna fyrirfinnast í Almannagjá og heita ákveðnir hlutar hennar mismunandi nöfnum. Hér verður farið yfir flestöll þekkt örnefni í Almannagjá og hefst útlistunin við suðurenda hennar.

Grjótnessgjár

Ein af Grjótnesgjánum og undanfari Almannagjár, við mörk þjóðgarðsins á Þingvöllum og Skálabrekku. Horft til suðurs í átt að Grjótnesi og Hellunesi.

Við Þingvallavatn

Undanfarar Almannagjár í suðri eru fjölmargar litlar sprungur sem koma upp á land undan Þingvallavatni við Hellunes, í landi Skálabrekku og við Grjótnes, skammt norðar, sem jafnframt er landamerki Skálabrekku og Kárastaða. Þar lá Grjótnessvegur, sem var hluti af forna Hallveginum. Sprungurnar frá Hellunesi liggja um Hádegishóla og trónir Hádegisþúfa við landamörkin á einum þeirra; hún var eyktarmark frá Kárastöðum og klukkan sló tólf er sólin fór yfir hana, séð frá Kárastöðum.

Sprungurnar við Grjótnes kallast einu nafni Grjótnessgjár. Fyrst um sinn eru þær slitróttar en þó hyldjúpar og sumar vatnsfylltar, liggja samsíða hver annarri og mynda þannig mjóa hraunrima, höft og spangir á milli þeirra. Gjárnar í Þingvallasveit hafa alla tíð verið mikill farartálmi og einungis hefur verið hægt að komast yfir þær við slík höft. Almenn málhefð í sveitinni er að kalla þessa staði stíga. Hugtakið stígur (eða stigur) felur í sér stig og er aðgreint frá götum, vegum og leiðum að því leyti að stígar einskorðast aðeins við ákveðna staði í gjám. Þannig liggja oft margar leiðir um einn og sama stíginn, sem er því eins konar sambland gönguleiðar og náttúrufyrirbæris.

Einn af þessum hraunrimum norður af Grjótnessgjánum kallast Veiðistígur og lá leið um hann frá Kárastöðum niður að svonefndum Veiðitanga við vatnið. Þar var útræði Kárastaðabænda áður fyrr og er nú uppsátur frá sumarhúsabyggðinni sem þar er. Ein gjásprungan á þessum slóðum nefndist Eyragjá eftir hesti nokkrum sem féll þar niður. Skammt norðan Veiðitanga er annar rimi sem nefnist Viðarstígur og liggur akvegur nú um hann niður á Rauðukusunes. Nesið var áður skógi vaxið og voru þá hrískestir fluttir um stíginn. Forni Hallvegurinn lá einnig um stíginn niður að vatninu og áleiðis að Þingvöllum. Þar við er Ferðamannahorn, áningarstaður ferðalanga.

Hrútagjá

Horft til norðurs frá efri barmi Hrútagjár í átt að Brúsastaðahólmum og Ármannsfelli.

Hrútagjá, Lambagjá og Hestagjá

Hin eiginlegu mörk Almannagjár eru almennt ákvörðuð við Viðarstíg og frá honum verður sprunguþyrpingin samfelldari, breiðari og dýpri og skiptist í stærri og lengri álmur. Hér koma áhrif landreks bersýnilega í ljós. Vestari barmur Almannagjár er hærri og færist hægt og rólega til vesturs. Þar er þverhnípt niður og má víða sjá smærri afgjár og sprungur, flestar allhrikalegar. Eitt gjárhaftið norðan Viðarstígs kallast Nautastígur – og stendur Nautaþúfa á lágum hól norðan hans – en staðsetning beggja er á reiki. Nautastígur hefur einnig verið sagður sunnan Viðarstígs.

Eystri barmur Almannagjár er aftur á móti lægri og markar upphaf sigdældar. Frá Rauðukusunesi sígur barmurinn hægt og rólega niður og myndar aflíðandi brekku sem kallast hér einfaldlega Hallurinn. Áðurnefndur Hallvegur er kenndur við hann og lá meðfram brekkurótunum, þar til hann sökk ofan í Þingvallavatn í mikilli jarðskjálftahrinu 1789.

Skammt norður af Viðarstíg birtist 500 metra löng gjárálma. Hún er djúp, óaðgengileg og botngróin að mestu. Hún er almennt kölluð Hrútagjá en örnefnið er illa skilgreint og ekki er nákvæmlega ljóst hvar suðurmörk hennar eru. Við norðurenda álmunnar er haft og aflangur hraunrimi sem kallast Hrútastígur. Þar eru tvær vörður við efri gjábarminn og þaðan liggur leið um rimann niður á neðri barminn. Stígurinn er auðveldur yfirferðar og þar má sjá fornar hleðslur til varnar búgripum.

Norður af Hrútastíg er stutt álma og við norðurenda hennar er illkleif grjóturð. Á Hallinum austan urðarinnar eru leifar þvergarða á tveimur stöðum og koma þeir heim við örnefnið Rjúpnagarð, sem nú er horfið. Hér var hlaðinn grjótgarður sem ákvarðaði mörk Kárastaða og Brúsastaða við Þingvallavatn.

Hrútastígur

Horft til suðurs frá Hrútastíg. Glittir í Hálfdánarvík og Rauðukusunes í bakgrunni.

Norður af áðurnefndri grjóturð kemur 200 metra löng gjárálma, botngróin og 20 metra breið að jafnaði. Kallast hún Lambagjá og var, líkt og nafnið gefur til kynna, notuð til að geyma lömb á vorin. Innangengt er í Lambagjá af Hallinum að sunnanverðu og má þar sjá fornar hleðslur tengdar fjárhaldi. Lítið op er við efri gjáhamarinn við miðja Lambagjá og þaðan er innangengt í þrönga afgjá. Þar hefur klettahrun skorðast í veggjaþrengslunum og myndað eins konar undirgöng. Þar má sjá veggjakrot unglinga frá miðbiki 20. aldar og innan af því er hægt að komast upp á efri gjábarminn með herkjum.

Lambagjá klofnar í tvennt við norðurendann og þar er örnefnið Klofningur. Vestari klofningurinn er djúpur og þröngur og þar eru fornar hleðslur líkt og fjárrétt. Hægt er að skríða undir hruninn klettadrang þar innst og príla upp á efri barminn með tiltölulega lítilli fyrirhöfn. Eystri klofningurinn er styttri en þakinn stórurð og mosa og því afar torfarinn.

Frá Klofningi er komið inn í Hestagjá sem hefur öldum saman verið nýtt sem hestaskjól af ábúendum, ferðafólki og þingheyjendum. Fornar vegghleðslur í gjánni og djúpir götuslóðar votta umferð liðinna tíma. Syðst í Hestagjá, við upphaf Klofnings, er örnefnið Kórinn. Hamraveggirnir þar eru alsettir flókakræðu (Alectoria sarmentosa ssp. vexillifera) sem vex yfirleitt á jarðvegi og hefur ekki sést hanga svona á öðrum klettum hérlendis.

Hestagjá er ríflega einn kílómetri á lengd, botngróin og tvöfalt breiðari en Lambagjá. Innangengt er í sunnanverða Hestagjá á nokkrum stöðum af Hallinum en gjábarmarnir hækka töluvert er norðar dregur og er mesta hæð hins efri um 25 metrar. Norðurhluti Hestagjár er nú þakinn háum og þykkum trjágróðri og svipað má segja um Hallinn austan af henni.

Stór, sprunginn hraunhóll situr á efri gjábrúninni vestur af ósi Öxarár og kallast Nónþúfa. Hún var eyktarmark frá Þingvallabæ og þegar sólin var yfir henni, séð frá bænum, sló klukkan þrjú um eftirmiðdag. Nónþúfa ákvarðar einnig landamerki Kárastaða og Brúsastaða ofan Almannagjár. Efst á Nónþúfu er nú steypujárnsstaur frá sjöunda áratug 20. aldar, komið fyrir af vísindamönnum frá Imperial College of London sem reyndu að mæla landrek á svæðinu með takmörkuðum árangri.

Hestagjá

Horft til norðurs inn eftir Hestagjá í lok vetrar. Steypujárnstaurinn á Nónþúfu sést vel á efri gjábarminum.

Almannagjá, Kárastaðastígur og Hamraskarð

Norðurendi Hestagjár markast við grjóturð og forna hleðslu og þaðan hliðrast gjáin lítillega og kallast einfaldlega Almannagjá – samnefnari gjörvalls sprungusveimsins. Almannagjá, þ.e.a.s. þessi hluti hennar, er langþekktasti og fjölsóttasti staðurinn á Þingvöllum. Gjáin gegndi veigamiklu hlutverki í þinghaldi og hennar er getið í ýmsum Íslendingasögum. Nafngift Almannagjár er gjarnan útskýrð sem svo að gjáin sé kennd við almenning sem sótti alþingi.

Syðst í Almannagjá, þar sem hún hliðrast frá Hestagjá, er afgjá og uppstig sem kallast Kárastaðastígur. Þar sameinuðust fjölmargar þjóðleiðir og heybandsvegir. Stígurinn var lengst af illfær en varð fjölfarnari eftir að Hallvegurinn sökk ofan í vatnið 1789. Kárastaðastígur var betrumbættur og flóraður á 19. öld og breikkaður til muna um aldamótin 1900. Þá var akvegur lagður niður Kárastaðastíg um Almannagjá og lá almenn bílaumferð um hana allt til ársins 1968.

Milli Kárastaðastígs og Hestagjár skagar fram oddhvass hraunrimi sem kallast Hak eða Hakið. Þar er nú hringskífa og útsýnispallur og skammt vestan hans stendur gestastofa þjóðgarðsins á Þingvöllum. Þar við er grjóthlaðinn garður frá Brúsastöðum, heytóft og vörðuð þjóðleið sem lá frá Kjósarheiði niður um Kárastaðastíg. Nyrst á Hakinu er hringlaga grjóthleðsla sem var líklega skotbyrgi og tengdist ratsjárstöð setuliða í seinni heimsstyrjöldinni skammt sunnan gestastofunnar. Þar stóðu vopnaðir hermenn og fylgdust með ferðum fólks um stíginn.

Niður af Kárastaðastíg er hraunrimi við eystri gjábarminn; þar eru djúpar dældir og burknagróður. Trépallur og göngubrú liggur yfir rimann og kallast Stuttistígur. Þetta er ungt örnefni og var þetta upphaflega tengileið úr Almannagjá niður að gistihúsinu Valhöll, sem var flutt austur undir Hallinn veturinn 1928–1929.

Hak og Kárastaðastígur

Hak og Kárastaðastígur í birtingu á aðventunni. Horft frá Stuttastíg.

Skammt norður af Stuttastíg tróna tveir litlir hraundrangar á efri gjábarminum. Þeir kallast Miðaftansdrangar og voru eyktarmark frá Þingvallabæ. Þegar sólin var yfir dröngunum, séð frá bænum, var klukkan sex að kvöldi.

Tæpum 200 metrum norðan Miðaftansdranga er annar hraunklettur, talsvert stærri og nefnist Arnarklettur. Samkvæmt munnmælum hremmdi haförn eitt sinn urriða úr Öxará og gæddi sér á honum á klettinum. Niður af Arnarkletti, á eystri gjáveggnum, má sjá örlítinn skúta sem kallast Sönghellir. Nafnið er til komið af skóladrengjum frá Hólum og Skálholti sem mættust á alþingi og sungu við skútann, sem rúmar aðeins örfáa einstaklinga. Ýmsir aflagðir hleðslusteinar eru sjáanlegir utan við Sönghelli og eru þeir taldir leifar smábygginga frá þingtímanum.

Almannagjá úr lofti

Horft inn eftir Almannagjá. Arnarklettur er í forgrunni fremst á miðri myndinni. Neðst til hægri sést í Hamraskarð og þaðan kemur Snorrabúð og Lögberg. Drekkingarhylur í fjarska, þá Fangbrekka, Furulundur og Stekkjargjá í bakgrunni.

Skammt norður af Sönghelli er skarð í Hallinum og um það liggur forn leið úr Almannagjá niður á Þingvelli. Skarðið þykir líklegur staður fyrir örnefnið Hamraskarð úr þingskapahætti Grágásar, þar sem goðum var ætlað að útnefna dómendur sína. Greinilegar leifar þingbúða má sjá báðum megin við Hamraskarð. Sunnan þess er búð kennd við ónefndan 18. aldar sýslumann úr Þingeyjarsýslu og enn eldri búðaleifar eru við suðurgafl hennar.

Norðan við Hamraskarð er Snorrabúð, nefnd eftir Snorra goða Þorgrímssyni. Þar sjást tvær 18. aldar þingbúðir, reistar hvor upp við aðra og voru þær eftirminnilegt yrkisefni Jónasar Hallgrímssonar. Búðirnar sitja ofan á manngerðri upphækkun sem samanstendur líklega af fjölmörgum mannvirkjum og hafa þar verið getgátur um virkisveggi. Norðan Snorrabúðar, inni í Almannagjá, er fjöldi búða frá 18. öld og tveir þvergarðar sem hafa líklega verið hrossaskjól. Þar var stórri, fornlegri þingbúð lýst á 19. öld en ummerki hennar hafa að öllum líkindum horfið í kjölfar veglagningar í gjánni í upphafi 20. aldar.

Hamraskarð

Sólsetur í Hamraskarði í byrjun vetrar. Horft í suðurátt að Haki. Skammt framar glittir í annan Miðaftansdranginn. Búðartóft sést glöggt í forgrunni og Arnarklettur gnæfir á efri gjábarminum.

Lögberg og Drekkingarhylur

Göngupallur úr timbri liggur upp á Hallinn norðan Snorrabúðar og ofan hans blakir íslenski fáninn við hún. Hér er Lögberg almennt talið hafa verið. Lögberg var þungamiðja alþingis á fyrstu öldum Íslandsbyggðar og voru hér lög sögð upp í heyranda hljóði. Fyrir neðan fánastöngina má glögglega greina hringmyndaðan grasblett sem er rúmlega 20 metrar í þvermál og stingur í stúf við mosann og lyngið sem annars vex í brekkunni. Þar eru leifar stórrar, fornrar áhleðslu sem hefur verið mikil fyrirhöfn að reisa og hefur væntanlega verið ætlað að draga úr brekkuhallanum. Hægt er að sjá móta fyrir stórum hleðslusteinum upp við göngupallinn. Á norrænum þingum var algengt að standa ofan á hólum, sérstaklega fornum grafhaugum, sem voru sléttaðir að ofan. Af þeim sökum er brekkan með áhleðslunni því talin líklegasta staðsetning Lögbergs sökum þess, auk staðháttalýsinga úr Íslendingasögunum. Hluti efri gjábarmsins vestan Lögbergs hefur stundum verið kallaður Gjáhamar á síðari tímum og er það útfærsla á texta Grágásar.

Vestan við Lögberg er viðlaus klettur og skarð þar á milli. Vestan við klettinn er brött brekka sem liggur upp að efri barmi Almannagjár og á seinustu áratugum hafa einhverjar getgátur sprottið upp um að þar hafi Lögberg í raun verið. Kjarnaborun í brekkuna hefur þó ekki leitt neitt manngert í ljós og rétthyrndar útlínur mannvirkis ofarlega í brekkunni eru leifar söngpalls frá Alþingishátíðinni 1930.

Skammt norðan áhleðslunnar á Lögbergi er lítil dæld og liggur göngupallurinn um það inn í Almannagjá. Skarðið hefur stundum kallast Krossskarð og er dregið af frásögn Kristnisögu um tvo krossa sem stóðu í „Skarðinu eystra“ eftir kristnitökuna eftir kristnitökuna árið 1000. Mikill efi ríkir um þetta örnefni. Tvær þingbúðir eru hvor sínu megin við göngupallinn í skarðinu svokallaða og voru þær tjaldaðar af bræðrunum Guðmundi og Magnúsi Ketilssonum, sýslumönnum í Mýra- og Dalasýslum í lok 18. aldar.

Lögberg

Horft til Lögbergs frá Öxarárhólma. Áhleðslan forna sést glöggt í brekkunni neðan fánastangarinnar og sker sig frá lynggróðrinum.

Norður af Krossskarði er mikið grjóthrun við efri vegg Almannagjár og hefur það stundum verið kallað Skriðan. Fyrir ofan skriðuna eru tveir litlir hraunhólar sem kallast Strókar. Lögun þeirra hefur stundum minnt á víkingaskip frá ákveðnu sjónarhorni.

Þar norðan við eru klettabelti og stórgrýti og rennur Öxará þar niður í flúðum. Vatnið safnast fyrir í litlum hyl og við suðurenda hans er formfagur steinn sem var vinsælt myndefni Kjarvals. Hylurinn kallast Drekkingarhylur og var aftökustaður á 17. og 18. öld. Alls var 18 konum drekkt í hylnum svo vitað sé og sú nítjánda á völlunum þar fyrir neðan. Atburðirnir eru dökkur blettur í sögu þjóðarinnar og varpa skugga á annars mikilfenglegan stað. Áin rennur niður úr Almannagjá um lítið haft í eystri barminum og myndar flúð sem stundum kallast „fossinn neðri.“ Vegur liggur nú fram hjá Drekkingarhyl og yfir brú hjá flúðinni.

Almannagjá heitir engu sérstöku nafni norðan Drekkingarhyls. Þar rennur Öxará um endilanga gjána og er þar nokkuð óaðgengileg. Einstaka urriðaseyði sjást þar í ánni, líklega hluti af urriðastofni Öxarár ofan Almannagjár. Nokkrar afgjár eru á þessum slóðum, nokkuð óaðgengilegar. Hallurinn norðan Drekkingarhyls kallast Fangbrekka. Örnefni þetta er fornt og skírskotar í glímuleika á völlunum til forna.

Drekkingarhylur

Drekkingarhylur í vatnavöxtum.

Öxarárfoss og Stekkjargjá

Nokkuð norður af þessu kallast gjáin Stekkjargjá. Syðst í henni er hinn víðfrægi Öxarárfoss sem steypist þar niður af efri gjábarminum. Sunnan við Öxarárfoss er afgjá og steinþrep, lögð fyrir Alþingishátíðina 1930 en löngu fallin úr notkun. Nokkrar gjótur eru í hallinum austan við fossinn og vellur áin upp úr þeim í miklum vatnavöxtum og leysingum. Konungshúsið var upphaflega reist við Hallinn beint austan Öxarárfoss árið 1907 en það var fært sunnar skömmu fyrir þjóðgarðsmyndun.

Skammt fyrir norðan Öxarárfoss er lítil mannvirkjatóft og skammt norðar er skarð í hallinum. Gilskorningur liggur niður úr skarðinu og mætti ætla að Öxará hafi einhvern tímann runnið þar niður. Hér stendur Furulundurinn svokallaði í hallinum; hann er elsti starfrækti skógræktarreitur á Íslandi. Furulundurinn var afgirtur og má enn má sjá leifar grjótgarðs á eystri gjábarminum.

Öxarárfoss

Öxarárfoss í leysingum.

Stórir klettarimar og afgjár eru í gjánni vestan við Furulundinn. Syðst á stærsta klettarimanum var Skógræktarfélag Íslands stofnað 1930 og má sjá minningarskjöld greiptan þar í hamravegginn. Skammt norður af skildinum eru tveir stakstæðir klettaranar og innan þeirra er gömul skilarétt Þingvalla; var hún notuð í stutta stund við þarsíðustu aldamót.

Annað skarð er í hallinum við norðurenda Furulundsins og liggur skorningur niður úr því; líklega er það einnig gamall farvegur Öxarár. Þar í skarðinu er stekkur sá sem Stekkjargjá er kennd við, hringlaga rétt og þvergarður. Stekkir voru notaðir í fráfærum fram á síðustu öld og hér voru ærnar frá Þingvallabænum mjólkaðar. Vestan við stekkinn er hliðargjá og klettadrangur sem nefnist Steingerður hin stórskorna. Ekki er ljóst hversu gamalt nafnið er.

Stekkjargjá

Stekkjargjá í vetrarbúningi. Steingerður hin stórskorna situr í afgjá hægra megin á myndinni.

Langistígur og Snókagjá

Nú er komið inn á gamla þjóðleið sem liggur úr skarðinu og þaðan inn eftir botni Stekkjargjár. Skammt norðan stekksins er viðlaus klettadrangur við lægri gjábarminn. Hér eru líklega Gálgaklettar eða Gálgaklettur þar sem sakamenn voru hengdir. Örnefni þetta hefur verið nokkuð á reiki í gjánni og hefur einnig náð að festa sig við stóran klettadrang skammt innar upp við vestari barminn. Drangur þessi kallast Bergbrúður. Frá Bergbrúði tvístrast Stekkjargjá og myndar uppstig við norðurendann. Þar heitir Langistígur. Hér lágu þjóðleiðir niður í Almannagjá og var botninn flóraður á 19. öld. Útsýnispallur er nú fyrir ofan stíginn.

Fyrir neðan Langastíg er urðarhaft og inn af því kemur Snókagjá. Karlkynsnafnorðið snókur í landslagi merkir gjarnan hala eða rana og er orðmyndin náskyld nafnorðinu snákur. Þetta er réttnefni á gjánni sem er margklofin og einkennist af mjóum, aflöngum klettarönum. Syðri hluti Snókagjár (sem kallast oft Snóka í daglegu tali) er illur yfirferðar en afar gróðursæll og má hér finna yfir 80 plöntutegundir. Nyrðri hluti Snókagjár er sléttur og greiðfær, því gjáin hefur fyllst af lækjarframburði og gamall lækjarfarvegur bugðast um botninn. Hér geymdu Skógarkotsbændur gjarnan búfénað sinn.

Hallurinn austan Snókagjár heitir Fagrabrekka. Syðst í henni er lítill barrtjáareitur sem nefnist Norðmannareitur og nyrst í honum er húsgrunnur. Þar var sumarhús reist 1907 og hét það Hvammur. Hús þetta var síðar flutt niður á Valhallarstíg nyrðri 6 og var svo fært austur í Fljótshlíð um síðustu aldamót þar sem það stendur enn. Gönguleið liggur um brekkuna endilanga.

Hvannagjá

Sumarnótt í Hvannagjá. Horft til norðurs við gamla farveg Leiralækjar.

Frá Tæpastíg að Bolabási

Norðurendi Snókagjár verður nú allþröngur og sprunginn. Hér tvístrast gjáin í tvær reinar og kallast brekkan milli þeirra Tæpistígur. Nú liggur Þingvallavegurinn niður hann. Eystri reinin er beint framhald Snókagjár og kallast Leiragjá; nafn þetta hefur einnig verið notað um aðra gjá skammt austar. Leiragjá er þröng og djúp en lítið landsig hefur orðið við barma hennar.

Vestari reinin nefnist Hvannagjá og hefur hér eystri barmurinn sigið líkt og annars staðar í Almannagjá. Hallurinn undan gjánni heitir Hvannabrekka eða Hvannagjárbrekka, þakin birkiskógi. Leiralækur rann áður fyrr ofan í suðurenda Hvannagjár og fyllti botna Hvannagjár og Leiragjár. Framburðurinn myndaði einnig flatirnar fyrir neðan sem kallast Leirar. Nú rennur Leiralækur í aðra átt en þó kemur fyrir að lækurinn fari sinn gamla farveg og þaðan niður í Leiragjá.

Hvannagjá tvístrast í ýmsar misbreiðar hliðargjár en meginálma hennar, 400 metra löng, er 30-40 metra breið og 5-10 metra djúp. Við norðurenda Hvannagjár er haft þar sem hægt er að klöngrast yfir í næstu álmu; kallast hún Klauf og er ekki löng. Norður af Klauf er annað haft og uppstig. Það heitir Leynistígur og hér lá þjóðleiðin til Þingvalla frá Ármannsfelli. Nú fer Uxahryggjavegurinn um Leynistíg.

Frá Leynistíg sameinast sprungureinarnar á ný. Hér liggur leysingafarvegur ofan í Almannagjá og hefur vatnið slípað hraunið verulega og framkallað sérstakan gljáa á því. Almannagjá verður nú slitrótt og liggur sprungusveimurinn alla leið inn í Bolabás. Nú er loks komið að endimörkum Almannagjár. Lítil lambakró er hlaðin í gjártöglunum upp við veginn. Hér hverfur gjáin inn í Ármannsfell og myndar greinilegt misgengi eftir endilöngu Ármannsfelli. Langt norðaustar birtist framhald Almannagjár undan Tröllhálsi og kallast Tröllhálsgjá.

Lýkur þá upptalningu örnefna í og við Almannagjá.

Almannagjá nyðri

Almannagjá norðan Leynistígs. Leysingafarvegur liggur alla leið úr Ármannsfelli niður í suðurenda þessarar gjárálmu við stíginn.