Jarðsagan

Jarðsagan

Á seinasta jökulskeiði lá þykkur jökull yfir öllu landinu sem var meira en 1000 metra þykkur þegar kaldast var. Undir jökulskildinum voru eldsumbrot sem mynduðu móberg. Sum þessara eldgosa náðu að bræða sig í gegnum jökulskjöldinn og enduðu í hraunrennsli. Önnur bræddu einungis hvelfingu undir ísnum og mynduðu móbergsfjöll eða langa móbergshryggi.

Fyrir um 18.000 árum hlýnaði, jökulinn tók að leysa og hann hopaði smám saman inn í landið. Fyrsti vísirinn að Þingvallavatni kom fram fyrir 12.000 árum. Þá lá jökultunga í Þingvallalægðinni og jökullón myndaðist syðst í henni, upp við Grafningsfjöllin. Þingvallavatn varð síðan til þegar jökullinn hopaði enn lengra norður og vatn frá honum safnaðist í lægðina. Undan jöklinum komu í ljós mismunandi gerðir móbergsfjalla sem myndast höfðu við eldsumbrot undir ísfarginu.

Fyrir um 10.000 árum er jökullinn hafði nálgast núverandi stöðu, hófust mikil dyngjugos. Þá myndaðist Skjaldbreiður ein fallegasta dyngja landsins.

Um svipað leyti gaus í dyngju sunnan við Hrafnabjörg sem Þingvallahraun rann frá og myndaði eldborgagígaröð. 

Þingvallahraun myndast

Úr Eldborgum sunnan Hrafnabjargar rann hraun vítt um Þingvallasvæðið. 

Talið er að gosin sem mynduðu dyngjurnar hafi staðið í áratugi. Hraunin tóku fyrir yfirborðsrennsli jökulvatns suður Þingvallalægðina. Allt vatn norðan frá hvarf í hraunið og kom undan því sem tært lindarvatn. 

Hraun úr dyngjunni sunnan við Hrafnabjörg rann langt út í Þingvallavatn og lokaði fyrir afrennsli þess við Sogshorn svo vatnsborðið hækkaði um 15 metra en jafnframt minnkaði vatnið mikið því hraunið fyllti það að stórum hluta.

Hraunið sléttaði í svip yfir Þingvallalægðina en landsig og sprunguhreyfingar héldu áfram og gjárnar endurnýjuðust og má nú virða fyrir sér innri gerð hraunsins í gjáveggjunum.

Þjófahraun

Þjófahraun rann fyrir um 3000 árum úr gígum norðar Hrafnabjarga

Fyrir rúmum 3000 árum opnaðist 8 km löng gossprunga norðaustan við Hrafnabjörg og myndaði Þjófahraun. Hraunið breiddist út austan við Tindaskaga en álma úr því rann vestur af norðan við Hrafnabjörg

Seinast gaus í Þingvallalægðinni fyrir 2000 árum. Gossprungan sem þá opnaðist er norðaustan við Hengil. Þá rann Nesjahraun í Grafningi og öskugígurinn Sandey reis upp af botni Þingvallavatns.

Eldvirkni hefur nú legið niðri á Þingvallasvæðinu í meir en 2000 ár, en ljóst er að einhverntímann í framtíðinni munu hraun aftur renna.