Börnin setja mark sitt á Íslandskortið er samstarfsverkefni Forsætisráðuneytisins, Hrafnseyrar og þjóðgarðsins á Þingvöllum, leitt af Kristínu R. Vilhjálmsdóttur. Fyrir nánari upplýsingar má hafa samband í gegnum kristinvil@gmail.com
Kristín R. Vilhjálmsdóttir
Boð um þátttöku í skólaverkefni vegna 80 ára afmælis íslenska lýðveldisins
Heill heimur af börnum - börn setja mark sitt á Íslandskortið
Í tilefni þess að 80 ár eru liðin frá stofnun lýðveldis á Íslandi efna Safn Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum til verkefnisins „Heill heimur af börnum – börn setja mark sitt á Íslandskortið“.
Hugmyndin er að hvetja börn til að miðla því sem þeim finnst mikilvægt og áhrifaríkt í lífi sínu og umhverfi á sjónrænan hátt - fólk, landslag, menning, listir, áhugamál, náttúra eða annað - og koma því til skila á nýju gagnvirku Íslandskorti sem er í mótun.
Börn opna reynsluheim sinn fyrir öðrum börnum
Verkefnið er nokkurs konar leiðsögn barna fyrir börn. Með því að smella á staði á landakortinu fæst innsýn í líf og umhverfi, reynsluheim, barna á hverjum stað í gegnum sjónrænt efni frá/af börnunum sjálfum.
Margt er sameiginlegt í lífi barna á Íslandi - og annað ólíkt.
„Heill heimur af börnum - börn setja mark sitt á Íslandskortið“ er leitt af Kristínu R. Vilhjálmsdóttur og byggir á aðferðum Menningarmóts sem hún hefur þróað og unnið í skólum á Íslandi og í Danmörku.
Áherslur í kennslu
Markmiðið er meðal annars að koma til móts við þá kafla aðalnámskrár grunnskóla sem fjalla um menningarfærni- og næmi og virkni í samfélaginu. Framtakið hefur inngildingu og þátttöku að leiðarljósi í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
Kallað er eftir þátttöku frá grunnskólum hringinn í kringum landið.
Svona takið þið þátt
Þátttakan felur í sér að kennarar í samvinnu við nemendur semja skemmtilega frétt þar sem nemendur miðla sínum hugmyndum. Fréttin er sett inn á vef skólans og að því loknu er fréttaslóðin sett inn á gagnvirka Íslandskortið.
Efni fréttarinnar getur verið ljósmyndir, myndbönd, textar og hvers konar listræn tjáning þar sem nemendur skilgreina atriði í lífi og umhverfi sínu sem hefur mótað þau og sem skiptir þau máli (sjá hagnýtar hugmyndir hér fyrir neðan).
Við viljum biðja ykkur að láta eftirfarandi texta fylgja fréttinni ykkar ásamt merki lýðveldisafmælisins sem er að finna í viðhenginu.
„Í tilefni þess að 80 ár eru liðin frá stofnun lýðveldis á Íslandi efna Safn Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum til verkefnisins „Heill heimur af börnum – börn setja mark sitt á Íslandskortið.“ Hugmyndin er að hvetja börn til að miðla því sem þeim finnst mikilvægt og áhrifaríkt í lífi þeirra og umhverfi, hvort sem það er fólk, landslag, menning, listir, áhugamál, náttúra eða annað, og koma því til skila á nýju gagnvirku Íslandskorti.“
Sendið slóðina á fréttina ykkar á netfangið kristinvil@gmail.com
Skilafrestur er 31. maí 2024.
Innblástur
Til að koma verkefninu af stað var haldið Menningarmót í Grunnskóla Ísafjarðar og í Fellaskóla í Reykjavík. Ef smellt er á skólana tvo á kortinu má finna innblástur fyrir hvernig hægt er að taka þátt og miðla því sem er efst í huga hjá nemendum.
Athugið að kortið er enn í vinnslu.
Það er einnig hægt að nálgast efni frá Grunnskóla Ísafjarðar hér.
Hugmyndir að spurningum og verkefnum
Spurningar sem kennarar geta nýtt til að leiða verkefnið:
Hvað fær okkur til að skína sem einstaklingar og sem hópur?
Hvað hefur mótað okkur sem manneskjur? (Staðir, fólk, atburðir o.s.frv.)
Hvað er einstakt fyrir staðinn sem við búum á?
Hvernig myndir þú vilja nýta hæfileika, styrkleika, tungumál og áhugamál þín ef þú yrðir næsti forseti Íslands? Nemendur klára setninguna: Ef ég væri forseti…. Skjal til notkunar hér
Hægt er að útfæra eitt eða fleiri af neðangreindum verkefnum sem miðlunarleiðir:
- Nemendur búa til sól sem sýnir hvað það er sem fær þau til að skína, hverjir styrkleikar þeirra eru og önnur atriði sem skipta máli í lífi þeirra.
- Nemendur útbúa “fjársjóðskistu” og sýna gripi, myndir, bækur, leikföng eða annað sem skiptir þau máli eða eru lýsandi fyrir þau sjálf og staðina sem þau tengjast.
- Nemendur hanna tímalínu og merkja atburði sem hafa haft áhrif á líf þeirra.
Sjá fleiri hugmyndir fyrir kennslu hér
Afhjúpun Íslandskortsins
Það er von okkar sem leiðum verkefnið að það takist að fylla kortið af atriðum sem börn um allt land kunna að meta í lífi og nærumhverfi sínu og þannig búa til vettvang þar sem þau kynnast „landslagi“ annarra barna.
Kortið verður afhjúpað við hátíðlega athöfn á Þingvöllum og á Hrafnseyri í tilefni þjóðhátíðardagsins. Nánari upplýsingar verða veittar síðar.
Notkun kortsins
Kortið verður aðgengilegt á vefi samstarfsaðila og hægt verður að nýta það í kennslu þvert á fög í öllum grunnskólum landsins.
Nánari upplýsingar
Nánari upplýsingar má finna hér. Einnig er velkomið að senda fyrirspurnir á Kristínu R. Vilhjálmsdóttur, sem leiðir verkefnið "Heill heimur af börnum - börn setja mark sitt á Íslandskortið" kristinvil@gmail.com.