Þingvellir voru meðal 48 staða í 33 þjóðlöndum sem voru teknir til umfjöllunar á fundi heimsminjanefndarinnar í Suzhou í Kína 28. júní til 7. júlí 2004. Ísland og Grænland voru að þessu sinni meðal fimm landa sem fengu slíka viðurkenningu í fyrsta sinn. Með samþykktinni eru Þingvellir meðal tæplega 800 -menningar- og náttúruminjastaða á heimsminjaskránni og er staðurinn þar með talinn hafa einstakt menningarlegt gildi fyrir alla heimsbyggðina.
Á þessari kortavefsjá má skoða má skoða heimsminjar um allan heim.
Tvenns konar minjar geta komist á heimsminjaskrána: mannvirki og náttúrufyrirbæri.
Menningararfleifðinni tilheyra söguleg mannvirki, byggingar og sérstakt menningarlandslag sem hefur að geyma sögulega, listræna, vísindalega, þjóðfræðilega eða mannfræðilega eiginleika. Eyjan Gorée í Senegal, borgin Quito í Ekvador, Palmyra í Sýrlandi og Burgos-dómkirkjan á Spáni eru þeirra á meðal. Tekið er tillit til uppruna þeirra ekki síður en umsjónar með þeim og verndunar þeirra.
Náttúruarfleifðinni tilheyra staðir sem hafa gildi vegna þess að þeir veita vitnisburð um líf á jörðinni, jarðfræðileg, líffræðileg eða vistfræðileg fyrirbæri, staðir sem búa yfir sérstakri fegurð, hafa vísindalegt gildi eða vegna þess að þar lifa sjaldgæfar dýrategundir. Meðal þeirra eru Vatnajökulsþjóðgarður, Surtsey, Vallée de Mai á Seychelleseyjum, Yosemite-þjóðgarðurinn í Bandaríkjunum, eldfjöllin á Kamtsjatka í Rússlandi og Ngorongoro-gígurinn í Tansaníu. Við varðveislu þeirra er lögð höfuðáhersla á verndun, stjórnun og óskert ástand minjanna.
Þá er ógetið blandaðra minja sem hafa verndargildi bæði vegna menningar og náttúru, svo sem Tassili n' Ajjer í Alsír, Aþos-fjall í Grikklandi og Tongariro-þjóðgarðurinn á Nýja-Sjálandi.