Hvað er heimsminjaskrá

Forth brúin í Skotlandi, sem er á heimsminjaskrá, séð af landi.
Canterbury dómkirkjan á Englandi sem er á heimsminjaskrá, séð að utan á björtum degi
Big Pit Mining Museum

Forth bryggjan

Canterbury dómskirkjan, St Augustine's Abbey og St Martin's kirkjan

Blaenavon iðnaðarlandslag

Sería af myndum sem sína staði á heimsminjaskrá víðsvegar um heiminn
Nokkrar minjar á heimsminjaskrá

Hér er dæmi um 26 heimsminjar sem eru á heimsminjaskrá.

Hvað er heimsminjaskrá?

Á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi mannsins, sem haldin var í Stokkhólmi árið 1972, viðurkenndu ríki nauðsyn verndunar þar sem það skaðar arfleifð allra þjóða heims ef einhver hluti hinnar menningarlegu eða náttúrulegu arfleifðar spillist eða hverfur.

Á sama ári var á þingi Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) gerður Sáttmáli um verndun menningar- og náttúruminja heimsins. Hvatinn að því var ákall um að bjarga Abu Simbel (Egyptalandi), Feneyjum (Ítalíu), Moenjodaro (Pakistan) og Borobodur (Indónesíu).

Ef ekki hefði verið gert samstillt átak á alþjóðavettvangi hefðu þessar minjar glatast fyrir fullt og allt. Af þessu spratt hugmyndin um að öll ríki sem til þess væru reiðubúin deildu með sér ábyrgðinni á því að vernda helstu menningar- og náttúruminjar á jörðinni. Samkomulagið grundvallast á þeirri forsendu að ákveðnir staðir á jörðinni hafi sérstakt alþjóðlegt gildi og eigi sem slíkir að tilheyra sameiginlegri arfleifð mannkynsins. Þjóðirnar eða aðildarríkin, sem standa að samningnum, hafa sameinast í því verkefni að bera kennsl á og varðveita merkilegustu náttúru- og menningarminjar í heiminum. Aðildarríkin, sem standa að samningnum, virða að fullu fullveldi þjóða og forðast að skerða eignarrétt manna sem kveðið er á um í löggjöf viðkomandi þjóðar en líta svo á að alþjóðasamfélaginu í heild beri skylda til að vernda heimsminjar. Íslendingar gerðust aðilar að samningnum í desember árið 1995. Samningurinn er einstakur að því leyti að í honum eru náttúruvernd og friðun menningarminja tengd saman í einu skjali.

Menningarleg sjálfsmynd er nátengd náttúrunni sem hún þróast í. Alveg eins og áhrifa frá náttúrulegu umhverfi gætir oft í skapandi verkum mannkynsins bera sumir stórfenglegustu staðirnir í náttúrunni ummerki mannlegra athafna í árþúsundir. Til þess að fá samþykki á heimsminjaskrá þarf viðkomandi staður að vera einstakur í heiminum. Afmörkun hans þarf að vera skýr af hálfu viðkomandi ríkisstjórnar og full sátt þarf að ríkja um verndun, umsjón og rekstrarfyrirkomulag.

Staðir á heimsminjaskránni draga gjarnan að aukinn fjölda ferðamanna þannig að mikilvægi viðkomandi staða eykst í þjóðhagslegu tilliti. Heimsminjaskráin er talin vera afar öflugt tæki til minja- og náttúruverndar ekki síður en til uppbyggingar vandaðrar ferðaþjónustu í hverju landi.