Vasaþjófnaður á Þingvöllum
Upp komst um þrautþjálfað gengi erlendra vasaþjófa síðastliðna helgi í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Síðustu helgi varð tilraun gerð til vasaþjófnaðar við útsýnisskífuna á Hakinu, ofan Almannagjár, en fórnarlambið gat varist verknaðinum með hrópum og köllum. Þjófagengið komst undan en leiðsögumaður á svæðinu tilkynnti atvikið til landvarða þjóðgarðsins sem gerðu lögreglu umsvifalaust viðvart.
Tveimur dögum síðar gerði vasaþjófagengið aðra atlögu við gesti þjóðgarðsins í Almannagjá og við Hakið. Óeinkennisklæddir lögreglumenn voru þá á staðnum og starfsfólk þjóðgarðsins í viðbragðsstöðu. Vasaþjófarnir urðu brátt varir við eftirlit og hörfuðu tómhentir af vettvangi í bílaleigubíl en voru síðar stöðvaðir af lögreglu skammt frá Þingvöllum.

Það getur stundum verið gott að hafa varann á sér á vinsælum ferðamannastöðum.
Nánari athugun hefur leitt í ljós að hópurinn hefur komið til Þingvalla á sama tíma á morgnanna fimm daga í röð og síðan haldið austur á Geysi og Gullfoss til þess að stela frá ferðamönnum. Hópurinn samanstendur bæði af konum og körlum, er þrautþjálfaður og með skipulagða aðferðafræði. Tveir til þrír standa á varðbergi, kanna hvort eitthvert eftirlit sé á svæðinu og gefa hinum síðan merki. Tveir til þrír velja sér fórnarlömb. Stolið er úr bakpokum eða töskum gesta með því að ganga þétt upp við þá eða með því að dreifa athygli þeirra. Oftar en ekki er það gert með því að biðja fórnarlambið um aðstoð við myndatöku. Á meðan því stendur hnuplar annar þjófur úr vösum fórnarlambsins.
Þetta er þriðja atvikið á þremur árum þar sem upp kemst um slíka iðju í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Undanfarin ár hefur vasaþjófnaður orðið meira áberandi á fjölsóttum ferðamannastöðum á Íslandi, líkt og hefur komið upp á sambærilegum stöðum erlendis. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum hvetur leiðsögumenn til að upplýsa hópa sína reglulega um slíka áhættu og að vera á varðbergi gagnvart vasaþjófnaði.