Þjóðgarðurinn á Þingvöllum undirbýr sumarvertíð
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum undirbýr sumarvertíð.
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum undirbýr sumarvertíð.
Í gær var starfsdagur á Þingvöllum þar sem saman kom reynt starfsfólk þjóðgarðsins ásamt nýju. Farið var í skipulag starfsins komandi sumar, fróðleiksmolum varpað fram og viðbragðsáætlun kynnt.
Haldið var öryggisnámskeið með áherslu á brunavarnir bæði innanhús en ekki síst gróðurelda. Við þetta tilefni undirritaði þjóðgarðvörður Einar Á.E.Sæmundsen nýja viðbragðsáætlun við gróðureldum innan þjóðgarðsins á Þingvöllum sem unnin var í vetur af Sveini Kristjáni Rúnarssyni hjá Verkfræðistofunni Verkís í samvinnu við starfsfólk þjóðgarðsins.
Í áætluninni eru skilgreindir ferlar og viðbrögð starfsmanna við gróðureldum. Brunavarnir Árnessýslu héldu námskeið fyrir starfsfólk þjóðgarðsins þar sem farið var yfir verkferla og tæki prófuð. Þjóðgarðurinn er í dag bæði útbúinn klöppum, ýmsum brunavarnarbúnaði og nýjasta í flórunni eru 20 lítra bakpokar sem fylltir eru með sápukenndu vatni til að slökkva elda.
Þyrla landhelgisgæslunnar lenti svo á Syðri-Leirum. Kynnt var fyrir starfsfólki hvernig væri best að taka á móti þyrlunni ásamt kynningu á ýmsu er varðar búnað þyrlunnar og mönnun.
Einnig tóku þátt Höskuldur Friðriksson sjúkraflutningamaður og Hermann M. Maggýjarson yfirmaður sjúkraflutninga hjá HSU en endurnýjað hefur verið samkomulag um viðveru sjúkraflutningamanns á Þingvöllum í sumar. Er þetta endurnýjun á samkomulagi þjóðgarðsins á Þingvöllum og Heilbrigðisstofnunar Suðurlands HSU sem komið var á fyrir heimsfaraldur COVID-19. Vera sjúkraflutningamanns á Þingvöllum eykur viðbragðsgetu HSU í uppsveitunum ásamt öryggi gesta þjóðgarðsins
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum lítur björtum augum að komandi sumar.