Litagleði í haustgöngu

Litagleði í fatnaði og laufskrúða

Göngufólk var ekki síður litríkt eins og haustlaufin á trjánum.

Sérstök haustlitaganga var haldin á Þingvöllum seinasta laugardag. Ríflega 50 manns mættu í gönguna og var aðsóknin framar björtustu vonum. Gengið var inn í Þingvallahraun og að Þórhallsstöðum, þar sem Þórhallur ölkofri er sagður hafa bruggað öl handa þingmönnum fyrir þúsund árum.

Þaðan var farið um svokallaða Klukkustígsleið, eina elsta þjóðleið til Þingvalla úr austri. Jafnan hefur vaxið yfir leiðina en í sumar var klippt úr henni og hún stikuð.

Með góðri mætingu  hjálpuðu þátttakendur til við að troða Klukkustíginn og gera greinilegri. þannig hjálpuðu göngugestir að varðveita merka og forna samgönguheimild.

 

Þjóðleiðir tvær

Í baksýn milli Búrfells og Botnssúlna liggur Leggjarbrjótur en hér ganga gestir eftir Klukkustíg.