Fjöldi gesta lagði leið sína á viðburði sem voru dagana 15 - 16. júní.
Svipmyndir frá 15 - 16. júní
80 ára lýðveldisafmæli á Þingvöllum
Allt að verða tilbúið
Almannagjá uppsett, bekkir komnir á sinn stað og nýr Lögbergsfáni flöktir í léttum vindinum.
Sviðið smíðað
Fyrir hátíðina var riggað upp útihátíðarsviði sem stendur enn tónlistarfólki framtíðarinnar til komandi notkunar.
Sviðið að taka á sig mynd
Þau voru ófá handtökin sem þurfti til; jarðvegsskipta, græja pall, þökuleggja og helluleggja.
Flaggborgir
Landverðir koma fyrir flaggborg í Hamraskarði næst Lögbergi.
Lögberg
Fáninn blakti sínu blíðasta á Lögbergi alla hátíðisdagana
Veislusvæðið
Hátíðin var að mestu haldin í Almannagjá og þar sem Valhöll áður stóð. Komið var fyrir matarvögnum sem mynduðu stórkostlega matarstemmningu á svæðinu. Mynd: Mirror Rose
Veislusvæðið
Hátíðarsvæðið hélt vel utan gesti sem mættu til Þingvalla.
Heill heimur af börnum - Menningarmót
Kristín Jónsdóttir frá Menningarmótum kynnir verkefnið Heill heimur af börnum. Verkefnið kynnir fyrir börnum ólíka staði á Íslandi um leið og þau tengja við sína átthaga. Heill heimur af börnum var unnið í samstarfi þjóðgarðsins, Hrafnseyra og forsætisráðuneytisins. Í bakgrunni má sjá Ásmund Einar Daðason barnamálaráðherra sem opnaði á Íslandskort barnanna.
Heill heimur af börnum
Salvör Nordal umboðsmaður barna tók þátt í að opna Íslandskort barnanna.
Þingvellir 1944 - Ljósmyndasýning
Birgir Ármansson forseti alþingis opnaði ljósmyndasýninguna Þingvellir 1944. Ljósmyndir voru fengnar frá ljósmyndadeild Þjóðminjasafns Íslands. Myndirnar sýna lýðveldishátíðina sem haldin var á Þingvöllum 17. júní 1944.
Þingvellir 1944 - Ljósmyndasýning
Fjöldi gesta lagði leið sína til Þingvalla 15. júní þegar ljósmyndasýningin opnaði í gestastofunni á Haki. Hljóðbrot úr safndeild RÚV spilast á sýningunni þar sem m.a. eru talin upp úrslit úr kjöri fyrsta forseta Íslands Sveins Björnssonar.
Fræðsluganga með landverði
Boðið var upp á landvarðagöngur um þinghelgina og inn í hraun. Hér leiðir landvörður gesti inn í heim sögu og náttúru Þingvalla.
Matarvagnahátíð
Rífandi stemmning var á matarvagnahátíð sem var unnin með götubitafélaginu Reykjavík Street Food. Bylgjulestin mætti á svæðið og veltubíll kom ungum sem öldnum gestum til skemmtunar og vissrar skelfingar.
Teymt undir börnin
Báða hátíðsdagana var teymt undir börnin á bökkum Öxarár. Gafst það afskaplega vel, öllum til yndisauka. Mynd: Mirror Rose
Teymt undir börnin
Farið var á hestbaki frá Valhallarsvæðinu og inn að þingstaðnum forna. Ekki ólíklegt að slík háttsemi hafi verið gerð áður þegar menn riðu til þings þó hestar væru ekki geymdir þar meðan á þingtíma stóð. Mynd: Mirror Rose
Forseti Íslands
Forseti Íslands leiddi göngu frá Haki og niður Almannagjá. Mynd: Mirror Rose
Sungið með forseta
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands hélt nokkur fræðslustopp en leiddi svo hópinn í fjöldasöng.
Kór eldri borgara
Sungið með landinu var einn af viðburðum 80 ára lýðveldisafmælisins. Fjölmargir kórar lögðu leið sína til Þingvalla yfir sumarið og sungu í Almannagjá. Einn af þeim var kór eldri borgara sem kom sunnudaginn 16. júní. Söng hann þar fyrir gesti og gangandi en meðal gesta var Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands.
Forseti Íslands
Forseti Íslands stoppaði við Lögberg þar sem fólk naut veðurblíðunnar meðan það hlustaði á fróðleiksmolana. Síðar voru sungnir söngvar í Almannagjá. Mynd: Mirror Rose
Fornleifaskóli barnanna
Fornleifaskóli barnanna sem hefur verið viðloðandi fræðslustarf þjóðgarðsins frá 2000 fékk yfirhalningu á svæðinu þar sem Valhöll áður stóð. Yfir 400 börn tóku þátt og fengu viðurkenningarskjal um þáttöku þeirra. Mynd: Mirror Rose
Fornleifaskóli barnanna er fyrir alla
Allir fengu að grafa og munda þeir skeiðina hér Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson og Einar Á. E. Sæmundsen þjóðgarðsvörður.
Forseti Íslands
Það var sannkölluð skrúðganga sem gekk með Forseta Íslands 16. júní í sumar. Mynd: Mirror Rose.
Prúðbúið fólk
Prúðbúið fólk mætti á sunnudaginn 16. júní, tilefnið kallaði enda til þess. Mynd: Mirror Rose.
Sungið með landinu í Almannagjá
Það voru ófáir hóparnir sem tóku lagið í Almannagjá. Hér er það Raddbandafélagið sem hafði kveðið upp raust sína. Mynd: Mirror Rose.
Sungið í Almannagjá
Karlakór Kjalnesinga ráku upp raust sína í Almannagjá og óhætt að segja að þær raddir hafi borist víða. Mynd: Mirror Rose.
Sungið í Almannagjá
Áhorfendur gátu komið sér vel fyrir í Almannagjá á meðan hlustað var á kóra syngja í brekkunni gegnt Lögbergi. Mynd: Mirror Rose.
Glíma
Glímufélag Íslands kom og sýndu handtökin í þessari fornu íþrótt. Mynd: Mummi Lu
Glíma
Gestir og sérstaklega krakkar fengu að spreyta sig á glímunni. Mynd: Mummi Lú.
Víkingar
Félagar frá víkingafélaginu Rimmugýgur slógu upp tjöldum á búðarústum. Gerður var góður rómur og gestagangur talsverður í tjöldin.
Víkingar
Tjaldað var yfir búðartóft sem merkt er Nikulási Sigurðssyni en hann var sýslumaður á 18. öld. Eldri búðatóftir eru allajafna lengra ofan í jörð og veggir síður jafn sýnilegri og síðari tíma búðarústir.
Gestir
Þegar líða fór á daginn streymdu gestir æ meir á Valhallarsvæðið enda var þungi dagskrárinnar þar.
Sungið með forseta
Þegar gangan forsetans endaði við Valhöll var vitaskuld brotist aftur út í söng og tók hópurinn vel undir.
Ljósmyndasýning
Ljósmyndasýningin Þingvellir 1944 skoðuð af forseta og þjóðgarðsverði. Mynd: Mirror Rose