Gróður og dýralíf

 

Haustlitir og Hrafnabjörg.jpgBirkiskógur er einkennandi fyrir Þingvallasvæðið enda er eitt elsta nafn svæðisins Bláskógar. Í
þjóðgarðinum hafa verið greindar 172 tegundir háplantna sem er um 40% íslensku flórunnar. Birkið ásamt víði, lyngi og fjalldrapa breyta ásýnd Þingvalla þegar haust tekur við af sumri og leggja þá margir leið sína á staðinn til að njóta þeirrar litadýrðar sem við blasir.

Á síðustu öld var mikið af trjám gróðursett innan þjóðgarðsins. Trjálundi má sjá á nokkrum stöðum innan þjóðgarðsins allt frá Almannagjá að Hrafnagjá.  

Þingvallavatn er sérstaklega djúpt og dregur af þeim sökum ekki til sín eins marga vatnafugla og grynnri vötn á borð við Mývatn gera. Að staðaldri lifa 52 fuglategundir við vatnið og 30 aðrar koma og fara.
Þekktasti fugl vatnsins er himbriminn sem verpir á fáeinum stöðum við vatnið. Hann er styggur og ver svæði sitt af ákafa. Ísland er austasta landnám himbrimans en þessi sérstæði fugl á ættir sínar að rekja til Norður Ameríku.  Vestan um haf koma líka húsönd og straumönd. Örn verpti forðum í Dráttarhlíð og Arnarfelli en er nú aðeins stopull gestur.

Refurinn læðist um holt og hæðir en hann hefur deilt landsins gæðum með manninum allt frá landnámi. Hann má finna við Þingvallavatn sem víðar á Íslandi.  Nýjasti íbúinn sem dvelst að staðaldri við Þingvallavatn er líklega minkurinn en hann var fyrst fluttur til Íslands 1931 til loðdýraræktar.Fljótlega sluppu nokkrir minkar úr búrum sínum og nú finnst minkurinn um allt land. Minkurinn kann vel við sig á Þingvöllum og verður hans víða vart við strandlengju vatnsins.

Um Þjóðgarðinn
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður með lögum árið 1930. Í lögunum segir að Þingvellir við Öxará skuli vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga.
Þingstaðaverkefnið
Þingstaðaverkefnið samstarfsverkefni 8 aðila sem miðar af því að draga fram sögu fornra þingstaða.
Heimsminjaskrá
Þingvellir voru samþykktir á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna 2.júlí 2004 á fundi heimsminjaráðsins sem haldinn var í Suzhou í Kína.
Þjónusta
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður 1930. Í dag eru Þingvellir einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins en um 500.000 gestir heimsækja Þingvelli árlega.