World Heritage Volunteers 2013


Untitled-2.jpgUndanfarna 10 daga hefur alþjóðlegur hópur sjálfboðaliða unnið að ýmsum verkefnum í þjóðgarðinum á Þingvöllum.  Framlag þeirra  er hluti af alþjóðlegu verkefni ”World Heritage Volunteers 2013” sem Heimsminjaráðið skipuleggur.  Verkefnið felur í sér sjálfboðavinnu á 57 svæðum á 55 heimsminjasvæðum víða um heim þar sem meginmarkmiðið er að vinna að verndun og viðhaldi heimsminjasvæða. 

Starfið á Þingvöllum er skipulagt af sjálboðaliðasamtökunum Seeds í samstarfi við þjóðgarðinn og hefur verið unnið undir stjórn Guðrúnar St. Kristinsdóttur yfirlandvarðar. Í hópnum eru 8 manns frá Wales, Þýskalandi, Englandi, Suður-Kóreu, Hong Kong, Bandaríkjunum og Noregi.  

IMGP2825 copy.jpg
Meginverkefnið á Þingvöllum hafa verið endurbætur á göngustíg með Öxará fyrir neðan Þingvallakirkju.  Stígurinn hefur nánast verið ófær undanfarin misseri en nú sér fyrir endann á því með öflugu starfi sjálboðaliðanna og verktaka sem vinnur með þeim.  Göngupallur úr timbri er smíðaður á stórum hluta en einnig er sett malarefni og torf og grjót í kanta. Sjálfboðaliðarnir hafa einnig unnið að hreinsun trjágreina og í almennri ruslahreinsun innan þjóðgarðins en eftir langan vetur er oft þörf á góðri tiltekt.  

Framlag sjálfboðaliða hefur lengi verið nýtt í þjóðgarðinum á Þingvöllum í afmörkuð verkefni meðal annars við göngustígagerð, ruslatínslu og nú síðast veiðivörslu.

IMGP2800 copy.jpg

Um Þjóðgarðinn
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður með lögum árið 1930. Í lögunum segir að Þingvellir við Öxará skuli vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga.
Þingstaðaverkefnið
Þingstaðaverkefnið samstarfsverkefni 8 aðila sem miðar af því að draga fram sögu fornra þingstaða.
Heimsminjaskrá
Þingvellir voru samþykktir á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna 2.júlí 2004 á fundi heimsminjaráðsins sem haldinn var í Suzhou í Kína.
Þjónusta
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður 1930. Í dag eru Þingvellir einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins en um 500.000 gestir heimsækja Þingvelli árlega.