Næstkomandi laugardag 11. maí mun Hjólreiðafélagið Hjólamenn halda hina árlegu Þingvallakeppni í götuhjólreiðum.  Þetta er ein elsta götuhjólreiðakeppnin á Íslandi sem hjóluð hefur verið nær óbreytt leið síðan á 10. áratug síðustu aldar.   Keppendafjöldi síðasta ár voru um 50 keppendur og má búast við auknum fjölda í ár enda mikil gróska í hjólreiðum þessi misserin.

7283089328_f2dddbd7db_b.jpgTil að bregðast við auknum fjölda keppenda og til að forðast að lenda í mikilli umferð verður keppnin í ræst kl. 9.  Hjólaður verður hefðbundinn réttsælis hringur innan þjóðgarðsins, ræst verður frá tjaldsvæðinu við Fögrubrekku og hjólað fram hjá Þjónustumiðstöðinni, austur veginn um Hrafnagjá, framhjá Gjábakka og niður að gatmótum hjá Arnarfelli þar sem tekin er hægri beygja inn að Vatnsviki og svo hjólað með ströndu Þingvallvatns inn að Silfru og upp framhjá þingstaðnum forna eins og leið liggur að Fögrubrekku.  Meistaraflokkur karla hjólar 4 hringi en aðrir flokkar styttra.  Reikna má með að hröðustu keppendur ljúki keppni um kl. 10:45 og þeir hægustu um hálftíma síðar.

Vegna hjólreiðakeppninar hafa þjóðgarðsvörður, lögregla og vegagerðin samþykkt að setja tímabundna einstefnu á vegakaflann frá Arnarfelli að Silfru frá austri til vesturs, þ.e. innakstur inn á þennan vegarkafla er ekki leyfður frá Silfru frá klukkan 09.00-11.30 á laugardagsmorgun.  Þessi ráðstöfun er gerð til að auka öryggi keppenda þar sem vegurinn á þessum kafla mjög þröngur og erfitt að mæta stórum rútum þegar fjöldi keppenda er orðinn jafnmikill og raun ber vitni.

Einstefna hjólreiðakeppni.jpg

Löng hefð er fyrir keppnishjólreiðum á Þingvöllum og má rekja þá sögu allt aftur til 1924.  Á 8. og 9. áratug síðusta aldar voru haldnar keppnir þar sem hjólað var yfir Mosfellsheiði og endað á Þingvöllum og létu þáttakendur ekki malarvegi aftra sér þótt hjólað væri á götuhjólum.  Hin síðari ár hefur keppnishald færst inn í þjóðgarðinn á Þingvöllum. Keppni í þessari mynd hefur haldist nær óbreytt frá um aldamótum og er því um að ræða elstu götuhjólreiðakeppni á Íslandi.  Keppnin á laugardaginn er annar bikar innan mótaraðar Hjólreiðanefndar ÍSÍ.  Keppnin er öllum opin svo lengi sem þáttakendur séu meðlimir í hjólreiðafélagi innan ÍSÍ.

Hjólreiðafélagið Hjólamenn er næst elsta starfandi hjólreiðafélag á landinu en það var stofnað í nóvember 2004.  Félagið er opinn félagsskapur allra þeirra sem hafa áhuga á hjólreiðum og er starfrækt undir UMSK með aðsetur í Kópavogi.  Félagið er með reglulegar æfingar, heldur fjölmargar  keppnir á ári hverju og stendur fyrir öðrum atburðum sem tengjast hjólreiðum.  Félagið heldur úti vefsíðunni www.hjolamenn.is þar sem má nálgast frekari upplýsingar um starfsemi félagsins og æfingar.

Um Þjóðgarðinn
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður með lögum árið 1930. Í lögunum segir að Þingvellir við Öxará skuli vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga.
Þingstaðaverkefnið
Þingstaðaverkefnið samstarfsverkefni 8 aðila sem miðar af því að draga fram sögu fornra þingstaða.
Heimsminjaskrá
Þingvellir voru samþykktir á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna 2.júlí 2004 á fundi heimsminjaráðsins sem haldinn var í Suzhou í Kína.
Þjónusta
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður 1930. Í dag eru Þingvellir einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins en um 500.000 gestir heimsækja Þingvelli árlega.