Þjóðgarðsvörður og Siglingastofnun hafa ákveðið að banna köfun niður fyrir 18 metra í gjána Silfru á Þingvöllum.Þessi ákvörðun er tekin til að tryggja öryggi þeirra fjölmörgu sem kafa í Silfru og vegna aðstæðna í gjánni sem eru til rannsóknar eftir banaslys sem varð þar 28. desember s.l. Bannið gildir frá og með hádegi laugardaginn 5. janúar 2013 og þar til annað verður ákveðið. Þar með er öllum óheimilt að kafa dýpra en 18 m (60 fet) í Silfru. Áfram gildir að óheimilt er að kafa einn síns liðs í gjánni, óheimilt er að kafa í hella, ranghala og göng og óheimilt er að fara í gjána og synda án hlífðarbúnings. Ítrekað er að hver sá sem kafar í Silfru gerir það á eigin ábyrgð.

silfrastigi.jpg

Þúsundir ferðamanna heimsækja Silfru á ári hverju, ýmist á eigin vegum eða á vegum fyrirtækja sem selja ferðir til að „snorka“ eða kafa í gjána. Silfra er talin meðal áhugaverðustu köldu köfunarstöðum í heimi en köfun þar er mjög krefjandi; vatnið í gjánni er óvenju kalt, 4-2°C, og hættulegir hellar, höft og ranghalar leynast víða. Silfra er á köflum allt að 50-60 m djúp og skyggni takmarkað einkum þegar birtu tekur að bregða. Aðstæður í gjánni hafa breyst á undanförnum árum eins og víðar á Þingvöllum og hrunhætta er nú talin meiri en áður.

Á síðustu misserum hafa orðið hörmuleg slys í Silfru. Þjóðgarðurinn hefur hefur ekki mörg einhliða úrræði til að auka öryggi þeirra sem þar kafa ýmist á eigin vegum eða á vegum ferðaþjónustunnar. Slíkt næst best með nánu samstarfi allra viðkomandi aðila og Siglingastofnun er nú að leggja lokahönd á öryggisreglur um köfun í Silfru sem taka munu gildi fyrir vorið. 

Í kjölfar framangreindra takmarkana verða á vegum þjóðgarðsins sett upp viðvörunarskilti við Silfru og nýjar reglur kynntar á heimasíðu þjóðgarðsins.  Einnig verður gripið til ráðstafana í gjánni sjálfri og við hana til þess að auka öryggi gesta eins og kostur er, m.a. með merkingum niðri í gjánni við hellismunna og hættuleg op þar sem lífshættulegt getur verið að fara um auk þess sem gerð verður úttekt á klettaveggjum í gjánni og hætta á hruni metin. Þá verða á næstu vikum settar reglur um takmarkanir og stýringu á fjölda þeirra sem mega vera í gjánni á hverjum tíma. Þá eru ótaldar framkvæmdir til að auðvelda fólki ferð um Silfru og aðstöðu fyrir þau fyrirtæki sem selja ferðamönnum aðgang að gjánni en fyrirhugað er að hefja gjaldtöku til að standa straum af þeirri þjónustu og eftirliti 1. mars n.k.

Um Þjóðgarðinn
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður með lögum árið 1930. Í lögunum segir að Þingvellir við Öxará skuli vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga.
Þingstaðaverkefnið
Þingstaðaverkefnið samstarfsverkefni 8 aðila sem miðar af því að draga fram sögu fornra þingstaða.
Heimsminjaskrá
Þingvellir voru samþykktir á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna 2.júlí 2004 á fundi heimsminjaráðsins sem haldinn var í Suzhou í Kína.
Þjónusta
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður 1930. Í dag eru Þingvellir einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins en um 500.000 gestir heimsækja Þingvelli árlega.