Hlaupið niður Almannagjá
Ólíkt því sem segir í laginu vinsæla að hlaupið sé upp hæðina (e. Running up that hill) þá verður hlaupið niður gjána, nánar tiltekið Almannagjá. Hlaupið er liður í viðburði hjá „Iceland Challenge“.
Ræst verður frá Haki ofan Almannagjár klukkan 08:00. Þaðan fara þáttakendur niður gjána að Furulundi, þvera sigdalinn eftir Skógarkotsvegi og Gjábakkavegi austur að Kálfstindum. Þaðan liggur leiðin suður að Úlfljótsvatni þar sem hlaupið endar.
Viðburðurinn ætti ekki að hafa teljandi áhrif á upplifun og notkun annara gesta í þjóðgarðinum þar sem hlaupararnir fara um vinsælasta svæðið í morgunsárið og verða á bak og burt þegar flestir aðrir eru að rísa úr rekkju. Morgunhressir eru þó beðnir um að taka tillit til hlaupsins sem ætti ekki að tefja neinn að nokkru ráði.