Fimmtudagskvöld á Þingvöllum

 

12.júní fjallar Dr. Þór Jakobsson veðurfræðingur um lýðveldishátíðina 1944 og minningar núlifandi Íslendinga um þennan merka dag í sögu Íslands.

Lýðveldisbörnin – minningar núlifandi Íslendinga um 17. júní 1944Þjóðarhátíðardaginn 17. júní 2011 söfnuðust nokkur hundruð manns saman í Almannagjá en þangað hafði Þór Jakobsson veðurfræðingur boðað þá sem voru viðstaddir stofnun lýðveldisins 17. júní 1944.

Á samkomunni í Almannagjá sem haldin var í samvinnu við Ólaf Örn Haraldsson þjóðgarðsvörð stakk Þór upp á því að hafist yrði handa við að safna minningum þessara „lýðveldisbarna“, minningum núlifandi Íslendinga sem mundu einn hinn mesta dag í sögu þjóðarinnar.  Þór og samstarfsmaður hans, Arna Björk Stefánsdóttir sagnfræðingur, hafa nú lokið verkinu, safnað pistlum frá um það bil 80 manns og jafnframt fengið hjá höfundum eina eða tvær myndir af þeim frá 5. áratugnum. Þrátt fyrir mikið puð hefur því miður ekki fengist fjárstuðningur til útgáfu og hefur þó verið leitað víða, m.a. til hinna þriggja stóru banka landsins og til æðstu staða í stjórnkerfinu.Hins vegar samþykkti Ríkisútvarpið að sýna sjónvarpsmynd á þjóðhátíðardaginn næstkomandi sem Eggert Gunnarsson kvikmyndagerðarmaður hefur unnið í samvinnu við Þór. Þar segja 17 hinna fyrrnefndu 80 lýðveldisbarnna  frá minningu sinni er þau á barns- eða unglingsaldri tóku þátt í hátíðarhöldunum 17. júní 1944.Á gönguferð um Þingvelli fimmtudaginn 12. júní nk. verður staldrað við öðru hverju og mun Þór segja frá 17. júní 1944 og lesa brot úr hinu nýstárlega minningasafni lýðveldisbarnanna.

Segja má að það hafi verið síðustu forvöð fyrir þjóðina að eignast þessar frásagnir lýðveldisbarna, en tvö þeirra sem sendu pistil hafa fallið frá síðustu misserin.  Þór og Arna Björk þakka Einari Sæmundsen fræðslufulltrúa þjóðgarðsins á Þingvöllum fyrir tækifærið og vona að margir muni skunda á Þingvöll til að forvitnast um hvað um huga unga fólksins fór daginn sem Ísland varð frjálst og fullvalda ríki fyrir 70 árum.

Gönguferðirnar hefjast alltaf við gestastofuna á Hakinu kl.20.00 á fimmtudagskvöldum og eru allir velkomnir.

Um Þjóðgarðinn
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður með lögum árið 1930. Í lögunum segir að Þingvellir við Öxará skuli vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga.
Þingstaðaverkefnið
Þingstaðaverkefnið samstarfsverkefni 8 aðila sem miðar af því að draga fram sögu fornra þingstaða.
Heimsminjaskrá
Þingvellir voru samþykktir á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna 2.júlí 2004 á fundi heimsminjaráðsins sem haldinn var í Suzhou í Kína.
Þjónusta
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður 1930. Í dag eru Þingvellir einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins en um 500.000 gestir heimsækja Þingvelli árlega.